Viljum bara þjóna fólkinu okkar

Ólöf Helga Adolfsdóttir og Agnieszka Ewa Ziólkowska standa nú í …
Ólöf Helga Adolfsdóttir og Agnieszka Ewa Ziólkowska standa nú í brúnni í Eflingu og hafa í nógu að snúast eftir stormasamt haust. mbl.is/Ásdís

Kaldir vindar hafa blásið um verkalýðsfélagið Eflingu undanfarið en eins og alþjóð veit sagði formaðurinn Sólveig Anna Jónsdóttir af sér og í kjölfarið fylgdi framkvæmdastjórinn, Viðar Þorsteinsson. Sólveig Anna sagði opinberlega að starfsfólkið hefði hrakið sig frá völdum en einhver ónægja virðist hafa verið á meðal starfsmanna sem einnig óttuðust um störf sín. Eftir afsögn Sólveigar var þáverandi varaformaður, Agnieszka Ewa Ziólkowska, skyndilega orðin formaður Eflingar og Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar, tók að sér varaformennsku. Þeirra bíður nú að lægja öldurnar og skapa frið á vinnustaðnum eftir ósættið og umtalið svo hægt sé að þjóna meðlimum Eflingar, sem eru tæplega þrjátíu þúsund. Þær hafa lítið viljað tjá sig við fjölmiðla en rjúfa nú þögnina og segja frá.

Hugmyndaríkir í svindlinu

Er munur á vandamálum íslenskra og erlendra skjólstæðinga ykkar?

„Já, ég tel svo vera. Í kjaramáladeildinni er meirihluti málanna sem þar koma á borð mál erlendra félagsmanna. Það er oftar svindlað á þeim því þau þekkja ekki rétt sinn. Atvinnurekendur telja auðveldara að svindla á erlendu verkafólki en íslensku. Þó er ekki hægt að alhæfa um það því á síðasta vinnustað mínum var verið að svindla á Íslendingum; þau bara áttuðu sig ekki á því. Þar voru það erlendir starfsmenn sem áttuðu sig fyrst á því. Sem trúnaðarmaður rak ég baráttu fyrir hönd okkar allra og skilaði hún sér í leiðréttingu á launum, sem ekkert okkar hefði notið nema vegna árvekni erlenda starfsfólksins.“

Hversu algengt er að atvinnurekendur svindli á sínu fólki?

„Það er mjög algengt!“ segir hún og leggur áherslu á orð sín.

„Það skaðar mjög þá atvinnurekendur sem eru heiðarlegir og fara að lögum. Þeir sem svindla borga fólki of lág laun, hunsa lög um orlof og réttindi og ég get sagt þér að þeir eru mjög hugmyndaríkir þegar kemur að aðferðum til að svindla. Það er hagur allra að refsa fyrir þessi brot, bæði launafólksins og heiðarlegra atvinnurekenda – og auðvitað samfélagsins. Þess vegna er ótrúlegt hversu treglega gengur að fá inn lagaheimildir til að leggja févíti á launaþjófa. Ef þjófnaðurinn væri annars eðlis – til dæmis beint út af bankareikningi – væri þetta aldrei látið viðgangast.“

Reynslan mun gagnast vel

Agnieszka hefur sjálf unnið í láglaunastörfum og segir reynslu sína koma sér vel í nýja starfinu. Sjálf hefur hún upplifað að svindlað hafi verið á henni.

„Ég held að reynsla mín muni gagnast öllum. Ég held ég sé eini formaður verkalýðsfélags sem hefur beina reynslu af launaþjófnaði og kem því með nýtt sjónarhorn inn í starfið,“ segir Agnieszka og segir að þrifafyrirtækið hafi reynt að svindla á sér og Kynnisferðir hafi svindlað á sér og öðru starfsfólki.

„Þessir atvinnurekendur voru stöðugt að svindla og fundu alltaf nýjar leiðir til þess, til þess að spara pening.“

Í starfi sínu hjá Kynnisferðum tók Agnieszka að sér hlutverk trúnaðarmanns félgsmanna Eflingar á vinnustaðnum og gegndi því hlutverki frá 2015-2019.

„Það er ólaunuð staða og í henni felst að hjálpa verkafólki við að eiga samskipti við verkalýðsfélagið og það gengur líka í hina áttina; verkalýðsfélagið getur átt samskipti við vinnustaðinn í gegnum trúnaðarmanninn. Trúnaðarmaður er brúin þar á milli, ásamt því að reka mál starfsfólks gagnvart atvinnurekendum,“ segir Agnieszka.

„Þetta var mikil vinna. Margir af mínum vinnufélögum töluðu hvorki íslensku né ensku og því var ég að hjálpa þeim að leita réttar síns. Ég varð fyrir miklu aðkasti af hálfu yfirmanna fyrir að standa á mínu og berjast fyrir réttindum samstarfsmanna minna og reyndi ég oft að kæra það til hærra settra yfirmanna.“

Að vernda minni máttar

Árið 2019 tók Agnieszka við sem varaformaður Eflingar og hefur unnið náið með Sólveigu Önnu, allt þar til 31. október þegar hún lét af störfum.

Hvernig var að vinna með Sólveigu?

„Ég studdi hennar pólitíska sjónarhorn og fannst mjög mikilvægt starf sem hún vann í þágu félagsmanna. Auðvitað viljum við nú halda áfram með hennar góða starf og höfum stuðning starfsfólksins hér. Það eru allir að hjálpa okkur að koma öllu í samt lag aftur.“

Var erfitt að setjast í stól formannsins, og það svona skyndilega?

„Það var ekki erfitt því sem varaformaður vissi ég að ein af mínum skyldum væri að taka við sem formaður ef eitthvað gerðist. Þannig að ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um.“

Leitt að sjá Sólveigu fara

Hvernig er andrúmsloftið núna á skrifstofunni?

„Það er að batna,“ segir varaformaðurinn Ólöf Helga Adolfsdóttir.

„Það eru allir leiðir að sjá á eftir Sólveigu því þau deila með henni draumnum um betri framtíð með meiri réttindum fyrir verkafólk. Það var erfitt að sjá hana fara en það er allt að komast í samt lag hér. Við höfum verið að vinna með vinnustaðasálfræðingi sem mun framkvæma vinnustaðaúttekt til að greina vandann og leita úrbóta.“

Er ekki einhver mótsögn í þessu; fólkið var óánægt með hana en finnst nú leitt að sjá hana fara?

„Ég held að það sé ekki endilega rétt að starfsfólk hafi verið óánægt með Sólveigu; þarna inni starfar fólk sem vildi gagngert taka þátt í hennar baráttu. En það var óánægja með ákveðin atriði í vinnuumhverfinu og samskiptum og farið fram á úrbætur. Síðan kemur í ljós að Sólveig var líka óánægð með ákveðna hluti í samskiptum við starfsfólk. Liður í vinnustaðaúttektinni er að skoða þetta og reyna að fyrirbyggja sambærilegan vanda í framtíðinni. Við upplifum hlutina á mismunandi hátt. Þetta var upplifun Sólveigar og það var alfarið ákvörðun hennar að hætta.“

Einblínum á framtíðina

Agnieszka hefur orðið.

„Við erum hér fyrir félagsmenn okkar eins og ég benti á. Ég studdi af öllu mínu hjarta starf Sólveigar en hún valdi að hætta og það var alfarið hennar ákvörðun, sem við virðum. Nú þarf að sjá um að allt starf hér geti haldið áfram. Við höldum áfram að vinna eins og venjulega að þeim verkefnum sem liggja fyrir. Þetta er eins og skip og við þurfum að halda því á floti,“ segir hún.

„Skiljanlega er fólk forvitið að vita hvað hefur gerst hér en ég er viss um að flest fólk hefur upplifað ágreining á sínum vinnustað og vill ekki endilega að það fari í fjölmiðla. Okkur finnst rétt að taka á þessum málum hér innanhúss og nú viljum við einblína á framtíðina,“ segir Ólöf.

„Við viljum bara þjóna fólkinu okkar. Fólkið okkar er mikilvægt; ekkert annað.“

Nýr formaður Eflingar, Agnieszka Ewa Ziólkowska, segir að það þurfi …
Nýr formaður Eflingar, Agnieszka Ewa Ziólkowska, segir að það þurfi að taka fastar á brotum atvinnurekanda sem margir svindli á verkafólki. mbl.is/Ásdís

Gífurlega stressandi tími

Við snúum okkur að málefnum og störfum trúnaðarmanna en það voru einmitt trúnaðarmenn Eflingar sem Viðar og Sólveig gagnrýndu í fjölmiðlum.

Við höfum rætt aðeins trúnaðarmenn, en spurningin er sú: Hver er tilgangur trúnaðarmanna ef þeir mega í raun ekki vera rödd starfsfólksins án þess að vera gagnrýndir opinberlega?

„Trúnaðarmenn eru alltaf í óþægilegri stöðu því þeir þurfa að hlusta á fólkið sitt en eru ekki endilega sammála alltaf. Samt sem áður þurfa þeir að vinna í þágu þess og bera fram bónir, og ég man að ég þurfti sjálf að gera það þegar ég var trúnaðarmaður. Ég var kannski ekki alltaf sammála en það var mín ábyrgð að þjóna fólkinu,“ segir Agnieszka og segir trúnaðarmenn innan stéttarfélags vera í annarri stöðu en trúnaðarmenn annarra fyrirtækja þar sem það vantar þá í raun þriðja aðilann, stéttarfélagið, sem hægt sé að leita til til að leysa ágreiningsmál.

„Við þurfum að skoða þessi mál betur í framtíðinni því við sjáum núna að þetta virkar ekki vel eins og það er í dag,“ segir Agnieszka og Ólöf bætir við:
„Við teljum trúnaðarmenn ákaflega mikilvæga og við eigum í góðu sambandi við trúnaðarmennina á skrifstofu Eflingar.“

Hafði ekki slíka drauma

Agnieszka og Ólöf hafa nú unnið saman í nokkrar vikur og segja samstarfið ganga vel.
„Við störfum saman á jafnréttisgrundvelli því ég trúi að allar ákvarðanir eigi að vera teknar af fleira fólki en bara einum einstaklingi. Ég er mjög glöð að Ólöf var til í að stíga inn og taka að sér þessar skyldur,“ segir Agnieszka og brosir.

Viljið þið breyta einhverju nú þegar þið eruð við stjórnvölinn?

„Við viljum bara hafa hér opið fyrir meðlimi Eflingar og halda áfram að þjóna þeim. Augljóslega erum við að stíga inn í alls kyns verkefni sem hafa verið á dagskrá lengi og höfum ekki hugsað okkur neinar stórar breytingar. Við verðum enn í stjórn eftir kosningar og horfum fram á kjaraviðræður á næsta ári,“ segir Ólöf.

„Áður en það allt byrjar viljum við ganga úr skugga um að vinnustaðir hafi trúnaðarmenn. Við viljum einblína á það líka því það er gífurlega mikilvægt og ég vil sjá fleiri trúnaðarmenn,“ segir Agnieszka.

Munuð þið fylgja sömu hugmyndafræði og Sólveig kom með til Eflingar?

„Já, tvímælalaust. Hvernig er ekki hægt að vilja það? Hún vildi bæta kjör láglaunafólks og krafðist úrbóta fyrir láglaunakonur, sem halda þessu samfélagi saman. Hver getur ekki verið sammála þessu?“ segir Agnieszka og brosir.

Hefði þér, Agnieszka, dottið í hug þegar þú komst hingað fyrir fimmtán árum að þú yrðir formaður verkalýðsfélags?

„Nei, ég hafði ekki slíka fáránlega drauma,“ segir hún og hlær.

Ítarlegt viðtal er við Agnieszku og Ólöfu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert