„Þá er eins gott að þið fáið ekki slæmar fréttir“

Sif Huld kallar bæði eftir reglugerðarbreytingu frá heilbrigðisráðuneytinu og viðhorfsbreytingu …
Sif Huld kallar bæði eftir reglugerðarbreytingu frá heilbrigðisráðuneytinu og viðhorfsbreytingu hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Móðir sem búsett er á Ísafirði hefur á einu ári þurft að verja hundruðum þúsunda í ferðir til Reykjavíkur til þess að sækja þar heilbrigðisþjónustu fyrir drenginn sinn. Hún kallar eftir breytingum á niðurgreiðslukerfi Sjúkratrygginga hvað varðar ferðakostnað foreldra sem búa fjarri höfuðborginni.

Móðirin sem um ræðir heitir Sif Huld Albertsdóttir. Hún á fjóra drengi, einn af þeim er með skarð í vör og góm sem þarf að sækja heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur á sex vikna fresti. Veikindi hans eru talin nægilega alvarleg til þess að Sjúkratryggingar Íslands taki fullan þátt í niðurgreiðslu kostnaðar við ferðir hans, og eins fylgdarmanns, til borgarinnar.

Aftur á móti greindist annar sonur Sifjar með ofnæmi fyrir um ári síðan. Veikindi hans teljast ekki nægilega alvarleg til þess að Sjúkratryggingar greiði niður fleiri en tvær ferðir fyrir hann til Reykjavíkur árlega, þrátt fyrir að hann hafi þurft að ferðast til Reykjavíkur alls fimm sinnum á síðastliðnu ári vegna þeirra. Því hafa foreldrarnir þurft að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af ferðum til Reykjavíkur vegna ofnæmisins, kostnaði sem fólk sem býr í borginni stendur ekki frammi fyrir.

„Þetta snýst alls ekki um það að okkur vanti pening til að fara á milli heldur að við séum á sama pari og fólk sem þarf að sækja sér læknisþjónustu til styttri vegar,“ segir Sif og bendir á að foreldrar sem eru illa staddir fjárhagslega gætu þurft að neita börnum sínum um heilbrigðisþjónustu, eða fresta slíkri þjónustu ef veikindin teljast ekki nægilega alvarleg til þess að börnin fái fleiri en tvær ferðir til Reykjavíkur árlega.

„Það er ekki á höndum allra að geta lagt út á milli 60 og 80 þúsund bara í flugið,“ segir Sif og bætir því við að foreldrar neyðist í raun til að kaupa dýrustu tegund flugmiða svo mögulegt sé að breyta þeim ef barnið þarf t.a.m. að vera lengur í Reykjavík vegna veikinda sinna.

Ríkisstarfsmenn fá um fjórum sinnum meiri pening

Þá þurfa foreldrar alltaf, óháð því hvort börn þeirra séu langveik eður ei, að láta út fyrir kostnaðinum við ferðina suður áður en kemur til endurgreiðslu. Ofan á kostnaðinn við það að ferðast til Reykjavíkur bætist svo gjarnan vinnutap, gisting í Reykjavík, uppihald og stundum kostnaður við bílaleigubíl. Að auki bendir Sif á að foreldrar sem þurfa að ferðast á bíl til Reykjavíkur vegna heilbrigðisþjónustu fái einungis 31 krónur endurgreiddan á hvern ekinn kílómetra á meðan Ríkisstarfsmenn fá um fjórum sinnum meira fyrir hvern ekinn kílómetra eða 120 krónur. 

„Þetta er alltaf rosalegur kostnaður fyrir einstaklinga til þess að leggja út fyrir og þurfa svo að bíða eftir dúk og disk þegar Tryggingastofnun og tryggingalæknir er búinn að taka þetta fyrir,“ segir Sif sem kallar eftir jafnrétti í þessum efnum. 

„Ég vil náttúrulega sjá það að við sem búum úti á landi njótum þeirra réttinda að geta farið með börnin okkar til læknis eins og þarf óháð því hvort það sé ein ferð, tvær eða fimm ferðir á ári. Að barn þurfi ekki að vera með banvænan eða langvarandi sjúkdóm til þess að fá fleiri en tvær ferðir. Ég hef sett mig vel inn í þessi mál vegna þess að mér finnst bagalegt að börnin okkar fái ekki sömu réttindi og önnur börn sem eru nær þessu kerfi.“

Það er ekki hægt að segja að við séum jöfn í þessu“

Foreldrarnir þurftu að fara upp á Barnaspítala með ofnæmisdrenginn sinn nýlega. Ferðina fá þau ekki endurgreidda þar sem sonurinn var búinn með sínar tvær ferðir fyrir árið og var ekki sendur með sjúkraflugi heldur að beiðni læknis í Reykjavík sem hafði áhyggjur af drengnum.

„Þegar læknar barnanna manns segja að þau þurfi að koma þá náttúrulega fer maður. Maður er ekki að bíða með það vegna þess að maður vill það besta fyrir börnin sín,“ segir Sif. 

„Við erum rosalega ójöfn. Það er ekki hægt að segja að við séum jöfn í þessu vegna þess að hlutirnir eru því miður þannig að ef þú lifir ekki og hrærist í þessu þá spáir þú ekkert í þetta. Sem er alveg skiljanlegt. Þetta er mjög flókið kerfi og þú ert ekki að setja þig inn í þetta nema þú þurfir þess.“

„Við erum ekki að biðja um mikið“

Fleiri gallar eru á kerfinu, að mati Sifjar, til dæmis sá að niðurgreiðslukerfi Sjúkratrygginga býður einungis upp á að annað foreldri ferðist með barninu til Reykjavíkur þegar það sækir heilbrigðisþjónustu.

„Þú vilt náttúrulega hafa makann þinn við þína hlið og barnsins. Ef þú ert bara einn með barninu þá er eins gott að þið fáið ekki slæmar fréttir,“ segir Sif.

Hún hefur, ásamt fleirum, reynt að vekja athygli á þessu misrétti árum saman, til dæmis með greinaskrifum, án þess að það hafi hlotið hljómgrunn hjá heilbrigðisyfirvöldum.

„Við erum ekki að biðja um mikið. Við erum ekki að biðja um að okkar börn fái eitthvað meira en önnur börn, bara að þau njóti sama réttar,“ segir Sif. „Það þarf að eiga sér stað reglugerðarbreyting og viðhorfsbreyting hjá sjúkratryggingum. Við erum ekki að leika okkur að því að fara með hann suður til læknis. Það er enginn sem myndi leika sér að því að fara með barnið sitt til læknis bara til þess að komast til Reykjavíkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert