Ábendingar bárust en engar bætur greiddar

Richardshús á Hjalteyri.
Richardshús á Hjalteyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Allnokkrar ábendingar bárust umsjónarmanni sanngirnisbóta fyrir allmörgum árum síðan um illa meðferð á Hjalteyri þar sem barnaheimili var rekið í Richardshúsi á árunum 1972 til 1979.

„Ég skoðaði það á þeim tíma en það var ekkert hægt að gera í því vegna þess að það lá ekki fyrir könnun vistheimilanefndar,“ segir Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta, og á þar við mögulegar bótagreiðslur.

Vistheimilanefnd, sem ekki er lengur starfandi, var sett á laggirnar árið 2007 til að kanna ásakanir vegna illrar meðferðar barna á vistheimilinu í Breiðavík. Eftir að skýrslu um málið var skilað var nefndinni í apríl 2008 falið að gera tillögur um hvort og þá hvaða önnur heimili skyldi kanna frekar og ákvað hún að skoða átta til viðbótar. Skýrslum vegna þeirra var skilað fram til ársins 2013.

Árið 2010 voru sett lög sem kváðu um að heimilt væri að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem höfðu orðið fyrir illri meðferð á einhverjum þeirra heimila sem vistheimilanefnd hafði kannað og skilað um þau skýrslu. Hjalteyri var ekki á meðal þessara heimila og þess vegna hafa ekki verið greiddar bætur til þeirra sem þar dvöldu. Ekki heldur til þeirra sem dvöldu á nokkrum öðrum heimilum sem ábendingar bárust um varðandi illa meðferð. Á meðal þeirra voru Vöggustofa Thorvaldsensfélagsins og allmörg sveitaheimili.

„Nefndin afmarkaði sjálf hvaða heimili skyldu könnuð eftir forsendum sem ég þekki ekki,“ segir Halldór Þormar og bendir á að nefndin hafi haft víðtækan aðgang að gögnum og upplýsingum og kallað fólk í skýrslutöku.

Halldór Þormar ásamt Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir nokkrum árum vegna kynningar …
Halldór Þormar ásamt Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir nokkrum árum vegna kynningar á skýrslu nefndar um greiðslu sanngirnisbóta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann kveðst hafa á sínum tíma komið öllum ábendingum í tengslum við illa meðferð á Hjalteyri og hinum heimilunum áleiðis. Hann hafi rætt málið við Guðrúnu Ögmundsdóttur, sem þá var tengiliður vistheimilanefndar. Dómsmálaráðuneytið fékk vitneskju um málið en það hafði forsjá með bótagreiðslunum.

Undanfarin ár hafa einnig komið fram ásakanir um illa meðferð á vistheimilinu Arnarholti og á meðferðarheimilinu Laugalandi, svo dæmi séu tekin.

Engar ábendingar vegna starfsemi í Garðabæ

Árið 2003 og árið 2006 opnuðu hjónin sem ráku barnaheimilið á Hjalteyri, þau Beverly og Einar Gíslason, leikskóla fyrir börn á aldrinum tveggja til sex ára. Garðabær afhenti þeim hentugt húsnæði fyrir starfsemina. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, greindi frá því í gær að starfsemin verði rannsökuð.

Spurður kveðst Halldór Þormar aldrei hafa fengið ábendingar um illa meðferð af hálfu hjónanna í Garðabæ og segist hann í raun aldrei hafa fengið ábendingar um neitt sem gerðist eftir 1995 til 2000, enda snúist starf hans fyrst og fremst um eldri atburði.

Málinu ekki lokið á sínum tíma

„Ég er á því að þessu máli hafi ekki verið alveg lokið á sínum tíma,“ segir hann um rannsókn vistheimilanefndar á barna- og vistheimilum, en bætir við að mjög erfitt og flókið sé að ráðist í kannanir sem þessar. Þær séu umfangsmiklar, gögn liggi ekki alltaf fyrir og hluti þeirra sem eiga í hlut sé í mörgum tilvikum látinn. Engu að síður hefði jafnvel mátt rannsaka fleiri heimili en þau átta sem voru rannsökuð eftir að Breiðavíkurmálið kom upp.

„Þetta var ansi stór biti að kyngja á sínum tíma þegar þetta kom allt upp í kjölfarið á Breiðavíkurmálinu. Margt af því sem kom upp þá var ekkert endilega nýtt en samfélagið var ekki tilbúið til að hlusta á það. Það hefði kannski þurft að taka annan umgang síðar, eða kannski halda þessu opnu til síðari tíma,“ greinir Halldór Þormar frá. „Miðað við það sem ég er búinn að sjá og heyra í gegnum tíðina kemur aldrei á óvart þegar það koma fleiri ásakanir.“

Hann nefnir að þingsályktunartillaga hafi komið frá Pírötum um að ráðast skuli í heildstæða athugun á vistheimilabörnum, auk þess sem tillaga hafi einnig komið um að kanna einkaheimili í sveitum.

Alþingi Íslands.
Alþingi Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Lagaheimild ekki fyrir hendi

Halldór bætir við að fólkið sem hefur stigið fram í fjölmiðlum vegna illrar meðferðar sem það var beitt á Hjalteyri sé mjög samhljóða mörgum öðrum sem hafa komið fram í áránna rás og ekkert í frásögnunum gefi tilefni til að ætla að þær séu ekki sannar. Mjög líklegt sé að fólkið fái sanngirnisbætur ef ríkið hæfi rannsókn á starfseminni.

Hann bendir þó á að það sé flókið fyrir stjórnvöld að ráðast í slíka könnun nema lagaheimild sé fyrir því. Lög um skipan vistheimilanefndar hafi verið felld úr gildi í desember síðastliðnum og núna eigi lög um sanngirnisbætur aðeins við um þá sem dvöldu á stofnunum fyrir fötluð börn. Sveitarfélög geti aftur á móti ráðist í innanbúðarkönnun í tengslum við vistheimili án sérstakrar lagaheimildar en það gæti orðið flóknara vegna þess að þau hafi ekki sama aðgang að gögnum og upplýsingum.

Ef kemur í ljós að pottur hefur verið brotinn segir Halldór bótaskyldu ekki augljósa vegna þess hve langt er um liðið. Bótakröfur séu fyrndar og sönnun tjónsins mun flóknari. Sanngirnisbæturnar hafi verið sniðnar að þessu og þar hafi þurft mjög einfalda sönnun til að sýna fram á tjón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert