Fyrst og fremst til að vernda börnin

Þórólfur segir ávinning af bólusetningum barna vega þyngra en áhættan.
Þórólfur segir ávinning af bólusetningum barna vega þyngra en áhættan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ávinning af bólusetningum barna á aldrinum 5 til 11 ára vega þyngra en áhættuna. Börn geta veikst alvarlega af Delta-afbrigðinu, þótt það sé ekki jafn algengt og meðal fullorðinna. Þá hefur að minnsta kosti eitt barn greinst með fjölkerfabólgusjúkdóm eftir Covid-19 sjúkdóminn.

Fyrr í faraldrinum talaði Þórólfur fyrir því að halda grunn- og leikskólum opnum á þeim grundvelli að börn sýktust síður en fullorðnir og urðu auk þess ekki jafn veik af sjúkdómnum. Síðan þá hefur hljóðið í sóttvarnalækninum breyst og til skoðunar er að bólusetja aldurshópinn 5-11 ára.

„Með tilkomu Delta-afbrigðisins þá erum við að sjá miklu meira af sýkingum hjá börnum. Í þessari bylgju er stór hluti smita hjá börnum og bylgjan sem við eigum við núna er að miklu leyti drifin áfram hjá börnum sem smitast í skólum og smita þá aðra heima. Við erum að sjá allt annað mynstur af þessu Delta-afbrigði og það er á þeim grunni sem að menn eru að skoða það – og hafa ákveðið – að bólusetja börn.“

Meiri veikindi meðal fullorðinna

Þrátt fyrir að smit og veikindi meðal barna hafi orðið meira áberandi eftir tilkomu Delta-afbrigðisins, segir Þórólfur það ekki hafa breytt því að fullorðnir eru enn töluvert líklegri til að veikjast alvarlega og þurfa að leggjast inn samanborið við þá sem yngri eru.

„Við höfum ekki tekið saman tölfræðina en erlendar rannsóknir sýna það og mynstrið hérna heima. Börn veikjast minna heldur en fullorðnir og það hefur verið þannig allan tíman.“

Þúsundir lagst inn á spítala í Bandaríkjunum

Hann segir bólusetningu aldurshópsins fyrst og fremst til þess fallna að vernda börnin gegn veikindum en auk þess mun þetta aðstoða við að hefta útbreiðslu smita í samfélaginu.

Hann bendir á að þúsundir barna hafi þurft að leggjast inn á spítala í Bandaríkjunum og að rannsóknir úr stórum þýðum þaðan hafi vísað til þess að ávinningurinn af bólusetningum vegi mun þyngra en áhættan af bólusetningunni.

Engar alvarlegar aukaverkanir

Enn hafa engar alvarlegar aukaverkanir komið fram í kjölfar bólusetninga 5-11 ára aldurshópsins en hins vegar hefur borið á alvarlegum aukaverkunum í kjölfar kórónuveirusýkingar, þótt þær séu ekki jafn algengar eins og hjá fullorðnum. Er þá aðallega um fjölkerfabólgusjúkdóm (MIS-C) að ræða. Að því er Þórólfur best veit hefur að minnsta kosti eitt barn greinst með þann sjúkdóm hérlendis eftir að hafa sýkst af veirunni.

„Það er mjög mikið bólgusvar sem kemur í kjölfar sýkingarinnar sem veldur skemmdum og bólgu í mjög mörgum líffærum með alvarlegum afleiðingum. Það geta verið nýrun, hjartað, heilinn og hvað sem er. Þetta er mjög alvarlegt sjúkdómsástand.“

Líkur á að börn fái hjartabólgur í kjölfar Covid-19 sjúkdómsins eru minni í samanburði við eldri aldurshópa og má því ætla að líkur á hjartabólgum eftir bólusetningu séu einnig minni.

Ónæmissvarið gott

Þórólfur segir bólusetningar meðal unglinga hafa skilað góðum árangri og rannsóknir erlendis frá vísi til þess að ónæmissvarið hjá yngri börnum sé bara svipað. „Þannig það eru góð rök fyrir því að bólusetningin muni virka líka jafn vel hjá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert