60 milljónir í útvistun aðgerða

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ætlar að veita Landspítalanum 60 milljónir króna til þess að gera spítalanum kleift að úthýsa hundruð aðgerða og þar með stytta biðlista sem hafa myndast síðan í byrjun faraldursins.

Aðgerðirnar verða tiltölulega einfaldar og því ekki líklegt að í kjölfarið þurfi sjúklingar að leggjast inn á spítalann.

„Þetta er mikilvægt verkefni í þágu sjúklinga sem annars þurfa að bíða óhóflega lengi eftir aðgerð sem er íþyngjandi og slæmt fyrir heilsu fólks. Ég bind vonir við að hægt verði að ráðast í fleiri og stærri verkefni með þetta að markmiði á næstu mánuðum“ segir Willum Þór í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Í haust var ráðist í sambærilegt átak þar sem heilbrigðisráðuneytið veitti spítalanum 26 milljónir króna í sama tilgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert