Viðkvæmum gögnum lekið frá Strætó

Strætó varð fyrir netárás á aðfangadegi jóla.
Strætó varð fyrir netárás á aðfangadegi jóla. mbl.is/Hari

Brotist var inn í netkerfi Strætó á aðfangadag jóla og viðkvæmum gögnum lekið. Líklegt er að gögnum um innri starfsemi fyrirtækisins hafi verið lekið frekar en persónuupplýsingum notenda, að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó bs.

„Við vitum ekkert hvað var tekið eða hvort eitthvað hafi verið tekið,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Þó liggur fyrir grunur um að gögnum frá akstursþjónustu Pant, fyrir fatlað fólk, hafi einnig verið lekið og voru allir notendur hennar beðnir að skipta um lykilorð á innri vef þjónustunnar.

Greiðslukerfið slapp

„Árásin verður á aðfangadegi og við sjáum fyrst að það er eitthvað skrýtið í gangi á jóladag. Svo 27. desember sjáum við að þetta hafi verið innbrot,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Svo virðist sem greiðslukerfi Strætó, Klapp, hafi sloppið við skrekkinn en vefþjónn þess er hýstur í Noregi. Strætó.is og Strætó-appið ættu einnig að hafa sloppið, en árásin er enn þá í rannsókn hjá sérfræðingum Syndis og Advania.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert