Snjómokstursmenn kalla ekki allt ömmu sína

Vaktin hjá Finni hófst klukkan fjögur í nótt og hann …
Vaktin hjá Finni hófst klukkan fjögur í nótt og hann býst ekki við því að henni ljúki fyrr en klukkan sjö í kvöld. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Dagurinn byrjaði snemma hjá snjómokstursmönnum á Akureyri í dag, líkt og í gær en töluvert hefur snjóað fyrir norðan undanfarna daga.

Finnur Aðalbjörnsson, snjómokstursmaður til tuttugu ára, segir snjóinn vera heldur minni en í gær en þó sé enn verið að moka snjó síðan í fyrradag.

„Það tekur marga daga að moka bæinn. Þetta gerist ekki á einum degi,“ segir Finnur.

Fimmtán tíma vaktir

Vaktin hjá Finni hófst klukkan fjögur í nótt og hann býst ekki við því að henni ljúki fyrr en klukkan sjö í kvöld.

Spurður hvort vaktirnar séu alltaf svo langar, heilir fimmtán tímar, svarar hann því játandi sérstaklega þegar það snjóar mikið.

„Stundum er þetta tvískipt, þá koma aðrir og taka við, alveg þangað til við komum aftur að moka klukkan fjögur.“

Sumir eru ekki jafn heppnir og aðrir.
Sumir eru ekki jafn heppnir og aðrir. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Ekki hægt að bíða og bíða

Finnur segir líklegt að hann þurfi að halda áfram að vinna yfir áramótin en aftaka veðri er spáð á nýársdag á Akureyri.

„Það er náttúrlega ömurlegt fyrir okkur að vera búnir að moka allt og svo verður ófært aftur. Það verður samt að halda þessum helstu umferðargötum og gönguleiðum opnum. Það er ekki hægt að bíða og bíða.“

Spurður um færðina á vegum bæjarins segir Finnur hana almennt góða og ekki sé hált.

„Það er ekki mikil hálka, þið mynduð kalla þetta fljúgandi hálku í Reykjavík,“ segir Finnur og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert