HÍ stefnir á staðkennslu

Reglurnar hafa áhrif á skólastarfið eins og flest annað.
Reglurnar hafa áhrif á skólastarfið eins og flest annað. mbl.is

Stefnt verður að því að hafa staðkennslu á vormisseri í Háskóla Íslands, eftir því sem við verður komið, að því er fram kemur í upplýsingapósti rektors til nemenda.

Útfærsla á kennslu fer eftir nánari skilgreiningu á hverju fræðasviði en sem fyrr verður leitast við að koma til móts við þá nemendur sem geta ekki mætt í tíma vegna einangrunar eða sóttkvíar. 

Sóttvarnarreglur sem nú eru í gildi gera að verkum að eftirfarandi reglur munu gilda í háskólanum:

  • Nándarmörk: Almennt gildir 2 metra regla í húsakynnum HÍ að frátöldum kennslustofum. Ef ekki er hægt að virða þessi mörk er notuð andlitsgríma.
  • Í kennslustofum á að leitast við að hafa minnst 1 metra milli nemenda, að öðrum kosti ber að nota andlitsgrímu.
  • Hámarksfjöldi nemenda er 50 í sama rými. Blöndun á milli hópa er heimil.
  • Hámarksfjöldi starfsfólks er 20 í sama rými. Starfsfólki er heimilt að fara á milli rýma.
  • Í sameiginlegum ferðarýmum, svo sem við innganga, í anddyri og á göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun.
  • Til að minnka smithættu er eindregið mælst til þess að fólk beri andlitsgrímur á göngum skólans.
  • Fólk er hvatt til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.
  • Starfsfólk er hvatt til að haga vinnu í samráði við næsta stjórnanda.
  • Hvatt er til þess að fundir verði rafrænir.

Segir rektor að vonir hefðu staðið til um að hafa hlutina á annan veg á nýju ári en hvetur nemendur til að fara að ráðum sóttvarnalæknis og þiggja bóluefni og örvunarskammt svo fljótt sem verða má. Í lokin bendir rektor nemendum að renna yfir uppbyggileg bjargráð varðandi nám á sérstæðum tímum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert