Kastaðist nokkra metra við höggið

Ekið var á hjólreiðamann í Garðabæ um fimmleytið í gær þegar hann var að fara yfir akbraut. Hann var staddur á gangbraut þegar slysið varð og kastaðist þrjá til fjóra metra við höggið.

Hjólreiðmanninn verkjaði í læri, bak og axlir og ætlaði eiginkona hans sem var komin á vettvang að aka honum á slysadeild, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um tvöleytið í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu að hóteli í miðbæ Reykjavíkur þar sem starfsfólk var í vandræðum með ofurölvi mann. Hann gistir venjulega í aðstöðu á vegum Reykjavíkurborgar en hefur verið í straffi þar síðustu daga og gistir núna á götunni.

Maðurinn fékk gistingu í fangageymslu lögreglunnar.

Brotist inn í fyrirtæki 

Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki í hverfi 105 á áttunda tímanum í gærkvöldi. Gluggi hafði verið spenntur upp og læsing brotin. Búið var að fara inn í húsnæðið en ekki er vitað hverju var stolið.

Umferðaróhapp varð í hverfi 108 um áttaleytið í gærkvöldi þegar bifreið var ekið á ljósastaur. Engin slys urðu á fólki. Bifreiðin var mikið skemmd og var hún flutt í burtu af vettvangi.

Frá klukkan 22 til 01 var ítrekað tilkynnt um flugelda við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði. Aðilar voru farnir þegar lögreglan kom á vettvang.

Laust fyrir klukkan eitt í nótt var bifreið stöðvuð eftir hraðamælingu á 118 km/klst. á Vesturlandsvegi þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert