Gera ráð fyrir miklu álagi í nótt og í fyrramálið

Landsbjörg hefur undirbúið viðbragð við óveðri næturinnar í dag en …
Landsbjörg hefur undirbúið viðbragð við óveðri næturinnar í dag en engin útköll höfðu borist á sjöunda tímanum í dag. mbl.is/Arnþór

Engin útköll hafa borist Slysavarnafélaginu Landsbjörgu það sem af er kvöldi en undirbúningur er í fullum gangi vegna þess óveðurs sem gert er ráð fyrir að skelli á seint í kvöld.

Davíð Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við mbl.is að sá undirbúningur snúist aðallega um að miðla upplýsingum til almennings.

 „Við metum stöðuna þannig að þetta er líklegast að það verði seint í kvöld og nótt og svo mögulega í fyrramálið. Það veltur allt á því hvernig úrkoman í þessu verður hvort það verði ófært á suðvesturhorninu eða ekki,“ segir Davíð spurður hvenær hann telji mesta álagstímann verða.

Skorða allt laust og huga að færð 

Davíð segir þær upplýsingar sem Landsbjörg hafi reynt að miðla til almennings vera af kunnuglegum toga. Íbúar á suðvesturhorninu þurfi að líta vel í kringum sig og og tryggja að þar sé ekkert laust sem geti fokið eftir síðustu vikur.

Þá sé einnig mikilvægt að fólk fylgist vel með upplýsingum um veður og færð í fyrramálið áður en haldið sé til vinnu.

Vonar að fólk hafi gengið tryggilega frá jólatrjám

Davíð vonar að allir hafi nú þegar gengið tryggilega frá jólatrjám svo engin þeirra liggi úti við götu ennþá.

„Það væri ráðlegt að gera það núna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert