Ekki þarf sérstakt leyfi vegna boðunar í bólusetningu

Persónuvernd áréttar að farið sé að lögum við vinnslu persónuupplýsinganna.
Persónuvernd áréttar að farið sé að lögum við vinnslu persónuupplýsinganna. AFP

Persónuvernd telur að ekki þurfi að sækja um sérstakt leyfi fyrir vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við boð í bólusetningar barna á aldrinum 5 til 11 ára. Ekki verði séð að þær upplýsingar sem aflað verður komi til með að verða samkeyrðar við aðrar upplýsingar á þann hátt að leyfisskylda virkist, né að unnið verði með upplýsingar á þann hátt að afla þurfi leyfis Persónuverndar. Þetta kemur fram í svari Persónuverndar við bréfi fyrirspurn sóttvarnalæknis.

Persónuvernd áréttar hins vegar mikilvægi þess að við umrædda vinnslu verði að öllu leyti farið að lögum um öryggisráðstafanir við vinnslu persónuupplýsinga og að þær skuli unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða. Þá er sérstaklega tekið fram að nánari afstaða kunni að verða tekin síðar ef kvörtun berst fyrir hönd skráðs einstaklings.

Ekki æskilegt að bólusetja heilan bekk á sama tíma

Í fyrirspurn sóttvarnalæknis kemur fram að meðal þeirra upplýsinga sem þurfi að afla og samkeyra séu upplýsingar um forsjáraðila barna, auk upplýsinga um barnið sjálft, meðal annars kennitölu í hvaða skóla og bekk barnið gengur. Lögheimilisskráningu og skráningu á heilsugæslustöð. Þá þurfi að samkeyra upplýsingar við símanúmeraskrá og tölvupóstskrá úr Mentor-upplýsingakerfi grunnskóla.

Í svari Persónuverndar er tekið fram að það muni reyna á ríka einkalífshagsmuni barna fari bólusetningar fram í skólum. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að bólusetningar barna á höfuðborgarsvæðinu fari fram í Laugardalshöll. Persónuvernd bendir á ef heill bekkur sé bólusettur í einu lagi á sama stað geti börn fengið vitneskju um bólusetningarstöðu hvers annars án þess að vilji þeirra eða forsjáraðila standi til þess. Er sóttvarnalækni leiðbeint um að huga sérstaklega að þessu atriði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert