Skiptalok á bókaútgáfu sem varð gjaldþrota 1990

Þrotabú Svart á hvítu var að lokum að fullu gert …
Þrotabú Svart á hvítu var að lokum að fullu gert upp eftir að 32 ár voru liðin frá því að það var úrskurðað gjaldþrota. mbl.is/Árni Sæberg

Á næst síðasta degi síðasta árs voru auglýst skiptalok í þrotabúi bókafélagsins og bókaútgáfunnar Svart á hvítu ehf. Ekki er óalgengt að slíkar skiptalokaauglýsingar rati í Lögbirtingablaðið, en athygli vekur að umrætt þrotabú var úrskurðað gjaldþrota árið 1990, eða fyrir tæplega 32 árum síðan.

Lagagrunnur og Íslandsgrunnur

Svart á hvítu var stofnað árið 1984 og gaf meðal annars út Íslendingasögur með nútímastafsetningu, Sturlungasögu, heildarverk Jónasar Hallgrímssonar og hóf vinnu við útgáfu á Sögu-Atlas. Þá var dótturfélag Svart á hvítu Íslenski gagnagrunnurinn hf. sem átti að smíða upplýsingabanka og hugbúnaðarkerfi. Var meðal annars ráðist í að smíða Lagagrunninn, sem átti að vera gagnabanki með öllum dómum Hæstaréttar og svo Íslandsgrunninn sem var forritunarvinna sem fólst í að gera Íslandslýsingu sem yrði grundvöllur annarra upplýsingagrunna. Sú vinna var þó ekki langt á veg komin þegar fyrirtækið varð gjaldþrota.

Nokkuð var fjallað um skiptin á sínum tíma, ekki síst eftir að ríkið ákvað að kaupa Íslenska gagnagrunninn hf. á 100 þúsund krónur árið 1992, eftir að hafa áður tekið veð í grunninum vegna skattaskuldar félagsins.

4,5 milljónir upp í 125,9 milljóna kröfur

Samkvæmt auglýsingunni í Lögbirtingablaðinu var Halldór Þ. Birgisson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri árið 1990, en með úrskurði í ágúst 2019 var hann leystur frá störfum og Ragnheiður Þorkelsdóttir skipuð skiptastjóri yfir búinu. Gekk Sigurður Rúnar Birgisson lögmaður svo frá búinu fyrir hennar hönd.

Samtals fengust 822.961 króna upp í forgangskröfur og 3,65 milljónir upp í almennar kröfur, en samtals námu þær 125,9 milljónum.

Síðasta gamla þrotabúið

Í júlí árið 2020 greindi DV frá skiptalokum Bílaumboðs Sveins Egilssonar hf., en það varð gjaldþrota árið 1992 og fékk Halldór það einnig úthlutað. Sagði hann þá að um mistök væri að ræða og fleiri tilvik væru um eldgömul þrotabú þar sem hefði farist að auglýsa skiptalok. Samkvæmt heimildum mbl.is eru skiptalok Svart á hvítu þau síðustu af þeim.

Til gamans má geta þess að þegar Svart á hvítu var úrskurðað gjaldþrota var það fyrir skiptarétti Reykjavíkur, en ekki fyrir héraðsdómi eins og nú er með gjaldþrot. Kom það í kjölfar laga um aðskilnað framkvæmdavalds og dómsvalds frá árinu 1989 þegar dómsvald sýslumanna var fært til héraðsdóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert