Jón Trausti tekur við vatns- og fráveitu Veitna

Jón Trausti Kárason.
Jón Trausti Kárason. Ljósmynd/Gunnhildur Hansdóttir

Jón Trausti Kárason hefur verið ráðinn forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum en fyrirtækið er umfangsmest á því sviði hér á landi.

Greint er frá ráðningunni í tilkynningu.

Jón Trausti er með meistaragráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og er þar að auki með bakkalárgráðu í vélatæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík og sveinspróf í vélvirkjun.

Undanfarin tvö ár hefur Jón Trausti starfað sem verkefnastjóri fjárfestingarverkefna hjá Veitum, en starfaði áður hjá Lotu verkfræðistofu og þar áður í kjötiðnaðarsetri Marel.

„Það er mér mikill heiður að vera falið það ábyrgðarhlutverk að leiða vatns- og fráveitu Veitna, en veiturnar tvær eru hluti mikilvægustu innviða samfélags okkar. Viðfangsefni okkar inn í framtíðina eru að halda áfram að tryggja viðskiptavinum Veitna hreint og heilnæmt drykkjarvatn og vinna í átt að sporlausri fráveitu. Sé tekið tillit til þeirra gríðarstóru áskorana og verkefna sem við sem samfélag sjáum við sjóndeildarhringinn, þá er ljóst að vegferð vatns- og fráveitu inn í þá framtíð verður í meira lagi krefjandi en jafnframt spennandi,“ er haft eftir Jóni Trausta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert