Þórður átti að koma fyrir dóm í gær

Þórður Már Jóhannesson var forstjóri Gnúps á árum áður.
Þórður Már Jóhannesson var forstjóri Gnúps á árum áður. mbl.is/Golli

Þórður Már Jóhannesson, sem lét af störfum sem stjórnarformaður Festar hf. í gær, átti að koma fyrir héraðsdóm í gær samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr í vikunni. Málinu var hins vegar frestað þar sem Þórður, sem er annar þeirra sem stefnt er í málinu, hafði upplýst að hann væri í sóttkví í Flórída vegna Covid-19, auk þess að ekki tókst að birta tveimur vitnum í málinu vitnastefnu.

Um er að ræða einkamál þar sem félagið Lyfjablóm ehf. hefur krafið Þórð og Sólveigu Pétursdóttur, sem situr í óskiptu búi Kristins Björnssonar heitins, um 2,3 milljarða í skaðabætur vegna háttsemi stjórnenda fjárfestingafélagsins Gnúps árið 2006.

Áður hafði héraðsdómur vísað málinu frá vegna fyrningar og tómlætis eigenda Lyfjablóms, en Landsréttur ómerkti þá niðurstöðu og sagði að taka ætti málið fyrir að nýju í héraði. Taldi Landsréttur að mála­til­búnaður um grund­völl skaðabóta­ábyrgðar ann­ars veg­ar og fyrn­ingu hins veg­ar falli veru­lega sam­an og því ekki fært að slíta þá þætti máls­ins í sund­ur þannig að leyst verði úr öðrum þeirra á meðan hinn bíði.

Málið átti að taka fyrir á ný í héraði í október, en þá voru tvö vitni í málinu erlendis og var aðalmeðferð frestað fram til dagsins í gær. Aftur tókst ekki að halda aðalmeðferðina, eins og fyrr segir, en ekki tókst að afhenda tveimur öðrum vitnum vitnastefnu auk þess sem Þórður lét vita að hann væri í sóttkví í Flórída.

Þórður var forstjóri Gnúps og eigandi að 7,1% hlut í félaginu, en það var stórt fjárfestingafélag á árunum fyrir fjármálahrunið. Tengist stefnan viðskiptafléttu þegar Gnúpur var stofnaður og hvort aðrir eigendur Gnúps hafi verið látnir fjármagna hlutafjárframlag Þórðar þannig að eigið fé Gnúps hafi verið minna en gefið var upp og þannig þynnt hlut annarra án vitneskju allra eigenda. Þá snýst annar hlut stefnunnar um skort á upplýsingum fyrir hlutafjáraukningu félagsins í lok árs 2007, en í janúar 2008 var félagið komið í þrot og gert var samkomulag við lánardrottna þess þannig að Glitnir tók yfir stjórnun Gnúps án þess að félagið hafi farið í gjaldþrot.

mbl.is hefur fjallað um málefni Gnúps ítarlega áður, meðal annars árið 2016, líkt og sjá má hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert