Þumall ekki það sama og þumall

Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu …
Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Árni Sæberg

Það vakti athygli í gær þegar Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) líkaði við færslu Loga Bergmanns, fjölmiðlamanns, þar sem hann ber af sér sakir í kynferðisbrotamáli sem hann er bendlaður við. Sigríður hefur nú greint frá því að það hafi verið mistök að líka við færsluna.

Segir tjáningarfrelsi mikilvæg mannréttindi

Í Facebookfærslu, sem ber yfirskriftina „Merkingarbær þumall", segist Sigríður hafa orðið það á að setja svokallað „like“ við umrædda færslu Loga Bergmanns og að hún hafi tekið hann til baka um leið og henni var bent á hve merkingarbær þumallinn getur verið.

Þumallinn þýði að hennar mati ekki samþykki öllum stundum, heldur þýði hann „ég heyri hvað þú segir“.

Fyrir mér er tjáningafrelsi okkar mikilvægt og grunnmannréttindi - líka þeirra radda sem eru okkur erfiðar eða við erum hreinlega ekki sammála. Ég á alveg FB vini sem falla í þann flokk. Svo er ég bullandi mannleg og oft hvatvís,“ segir hún í færslunni.

Ákvað samt að loka á ummæli við færsluna

Þrátt fyrir það segir hún hug sinn og stuðning fyllilega vera hjá þolendum og fjölskyldum.

„Það er vegferð okkar sem samfélags að læra góð samskipti og hegðun og AF-læra þöggunar- og ofbeldismenningu. Verum samfélagið sem við viljum búa í“.

Eftir að Sigríður birti færsluna bætti hún því við að hún hafi ákveðið að loka fyrir ummæli við hana þar sem hún telji „tjáskipti á snjallmiðlum lélega samskiptatækni“ og „afleita fyrir svona viðkvæm málefni“.

„Þumlar hér munu þýða „ég heyri hvað þú segir“ svo allir séu með sama skilning,“ skrifar hún að endingu í færslunni sem hún lokar svo með myllumerkinu #engagerendameðvirkni.

Samkvæmt skilgreiningu Facebook er það að „læka“ eitthvað leið til þess að láta fólk vita að þér líki við efnið sem um ræðir hverju sinni án þess að þurfa skilja eftir ummæli við það. Hver sá sem getur séð efnið, hvort sem um er að ræða færslu, mynd eða myndband, getur séð að þú hafir „lækað“ það.

Facebook býður fólki þó einnig upp á að velja önnur tjákn fyrir annarskonar viðbrögð. Dæmi um slík tjákn eru broskarl sem er hissa, reiður eða grátandi og svo hjarta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert