Vonar fyrir samfélagið að málunum ljúki senn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vona að Guðmundar- og Geirfinnsmálin muni teljast til einstakra mála um ókomna tíð.

Ríkið ætlar ekki að áfrýja máli sem Erla Bolladóttir vann í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni, sem gerir henni kleift að fara fram á endurupptöku máls sem hún var dæmd fyrir árið 1980. 

Hún var dæmd í Hæstarétti fyrir að hafa borið rangar sakir á svokallaða Klúbbsmenn í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. 

„Ég persónulega segi að auðvitað vonast ég til þess að málum geti verið lokið. Þau hafa varpað löngum skugga, auðvitað fyrst og fremst á líf þessa fólks og aðstandenda þeirra, en líka yfir samfélagið. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir samfélagið að það fáist einhvern lúkning í þessum málum öllum,“ segir Katrín við mbl.is spurð að því hvaða skilaboð hún hefði til þeirra sem sakfelldir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, nú þegar mikill skriður hefur verið á málum þeirra að undanförnu. 

„Þetta mál er einstakt og verður vonandi einstakt um ókomna tíð.“

Snýst ekki bara um peninga

Mál Erlu Bolladóttur fer nú fyrir endurupptökudóm sem sker úr um hvort heimilt verði að taka mál hennar upp að nýju. Fari svo verður málið flutt fyrir Hæstarétti öðru sinni og þá fæst endanleg niðurstaða í málið. 

Verði sýkna niðurstaðan segir Katrín að fyrst þá verði hægt að gera upp við Erlu og greiða henni skaðabætur t.a.m. Katrín áréttar þó að málalyktir í Guðmundar- og Geirfinnsmálum snúist ekki bara um peninga.

„Við dómsmálaráðherra höfum haft samráð um þessi mál af því þau heyra í raun undir okkur bæði. Niðurstaða okkar var sú að áfrýja ekki til þess að þessi mál geti klárast sem fyrst,“ segir Katrín og bætir við:

„Ég hef nú talið, í þessum mjög svo flóknu málum – af því þetta mál er auðvitað öðruvísi þar sem ekki liggur fyrir sýknudómur – að fjárhagslegu bæturnar séu bara einn hluti af þessu. Það skiptir máli hvað kemur fram í dómsorði og maður skynjar það í þessum dómum sem féllu í Landsrétti fyrir jólin, að sjálfur úrskurðurinn skiptir ekki síður máli en bæturnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert