Falla frá launaauka leikskólastarfsmanna

Gert er ráð fyrir að starfsfólki á leikskólum fjölgi um …
Gert er ráð fyrir að starfsfólki á leikskólum fjölgi um 70-90 starfsmenn á ári að meðaltali. Ljósmynd/Colourbox

Reykjavíkurborg hefur fallið frá hugmynd um 75.000 króna launaauka starfsmanna leikskóla fyr­ir að fá vini og ætt­ingja til starfa í skól­un­um.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni og segir þar að áfram verði fylgt eftir átaki um aukna fjölgun leiksskólaplássa með fjölþættum stuðningi við leikskólastjórendur varðandi ráðningar- og mannauðsmál.

Gert er ráð fyrir að starfsfólki á leikskólum fjölgi um 70-90 starfsmenn á ári að meðaltali.

„Borgarráð samþykkti á fimmtudag að leggja aukið fjármagn, um 20 milljónir króna, til að styðja við ráðningar- og mannauðsmál. Þar munar mestu um aukinn stuðning mannauðsráðgjafa sem munu einbeita sér að stuðningi við stjórnendur leikskóla í ráðningarmálum,“ segir í tilkynningunni.

Leggja meiri kraft í að þróa aðrar hugmyndir

Þá segir að annars vegar verði vakin athygli á störfunum og að laða að fleiri umsækjendur. Hins vegar að hlúa að starfsumhverfinu og draga þannig úr starfsmannaveltu. 

Í tilkynningunni segir að ákveðið hafi verið að hætta við launaaukann og leggja meiri kraft í að þróa aðrar hugmyndir.

„Eins og nýja auglýsingaherferð, efla íslenskukennslu og bæta móttöku nýliða, þróa aðgengilegra umsóknarkerfi, auka greiningarvinnu, efla stuðning við einstaka leikskóla, og samstarf við ráðningastofur og Háskóla Íslands. Þá verður leitað leiða til að hlúa betur að starfsumhverfinu til að draga úr starfsmannaveltu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert