Gæti verið þörf á frekari liðsauka

Gífurlegt álag er á Landspítalanum um þessar mundir.
Gífurlegt álag er á Landspítalanum um þessar mundir. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Ekki er útilokað að frekari liðsauki frá öðrum heilbrigðisstofnunum berist til Landspítalans á næstunni. Ástandið er erfitt og þá sér í lagi þar sem hluti starfsmanna er í sóttkví og einangrun.

Þetta segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir á Covid-19 göngudeild, og tekur fram að forgangsraða þurfi verkefnum meðan álagið sé þetta mikið.

„Öllum brýnum verkefnum er sinnt en við verðum að endurskipuleggja okkar þjónustu á meðan bylgjan er í hámarki. Bæði hér á spítalanum sem og í kerfinu í heild sinni,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is.

Klíníkin styrki spítalann mikið

Hann segir það sem geti beðið muni þurfa að bíða, til að mynda ákveðnar skurðaðgerðir sem þarf að fresta. Liðsaukinn frá Klíníkinni komi til með að styrkja spítalann mikið.

Bendir hann þó á að ekki sé gert ráð fyrir því að þetta ástand vari lengi en meðan svo er þurfi einfaldlega að forgangsraða verkefnum eftir alvarleika þeirra. Fólk með lífshættuleg vandamál gangi þó auðvitað fyrir hér eftir sem hingað til.

Spurður hvort eina ráðið sé nú að herða takmarkanir og draga úr daglegum smitum segir hann ljóst að við „verðum að leita allra leiða sem þjóð til þess að takast á við þetta“.

Þessi bylgja sé afar erfið viðureignar og álagið sem stafi af henni sé gífurlega mikið.

Staðan er áhyggjuefni

Eru þessar þrjár vikur og þessir tæplega tuttugu starfsmenn frá Klíníkinni nóg?

„Ég á alveg von á því að við munum þurfa að fá liðsauka úr fleiri áttum. Hvað tímalengdina varðar þá er erfitt að spá fyrir um það. Við vinnum út frá ákveðnum spálíkönum en það eru bara margir óvissuþættir í þessu öllu.“

Hann segir þó að þrjár vikur séu „hóflegur tími og viðeigandi fyrsta skref“ í þessu ferli. Vonast hann til þess að spítalinn nái vopnum sínum á ný svo ekki þurfi að framlengja þetta fyrirkomulag.

En eru menn orðnir verulega áhyggjufullir vegna stöðunnar?

„Þetta er náttúrulega orðinn umtalsverður fjöldi sem liggur inni á spítalanum og við þurfum að sinna öðrum sem eru bráðveikir. Ef fram heldur sem horfir þá hefur þetta gríðarlega alvarleg áhrif og er áhyggjuefni. En við verðum bara að takast á við þetta og stuðningurinn frá Klíníkinni, og vonandi frá fleiri stofnunum, kemur að verulega góðum notum.“

Ítrekar Runólfur þá að þeir sem lokið hafa sjö daga einangrun og finna ekki fyrir einkennum en hafa ekki náð sambandi við göngudeildina geti útskrifað sig sjálfir. Er þetta gert vegna þess að göngudeildin nær einfaldlega ekki að anna þeim fjölda sem þörf er á.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir covid-19 göngudeildar Landspítalans.
Runólfur Pálsson, yfirlæknir covid-19 göngudeildar Landspítalans. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert