„Svolítið eins og að vera kominn í fiskvinnslu“

Björgunasveitafólk úr öllum sveitum á höfuðborgarsvæðinu kom að björguninni.
Björgunasveitafólk úr öllum sveitum á höfuðborgarsvæðinu kom að björguninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rétt fyrir miðnætti í gær var óskað eftir aðstoð björgunarsveita við að bjarga frosnum fiski úr flutningabíl sem valt á Vesturlandsvegi í gærkvöldi, skammt frá Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ.

Mjög hvasst var á vettvangi og mikil hálka og aðstæður því erfiðar, en björgunarsveitafólk frá flestöllum björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu kom að björgunarstarfinu á einn eða annan hátt.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að aðgerðin hafi gengið vel og að tekist hafi að bjarga mestu af farminum, en vegna aðstæðna hafi ekki tekist að tæma bílinn alveg fyrr en undir morgun.

„Þetta virtist bara ganga vel þegar upp var staðið. Það var auðvitað leiðindaveður þarna og það voru mörg handtök sem þurfti til að koma farminum út og í burtu,“ segir Davíð.

„Þetta var svolítið eins og að vera kominn í fiskvinnslu. Það voru mörg handtök og mikið um að vera,“ bætir hann kíminn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert