Forsetasvíta í framandi veröld

„Mér finnst mikilvægt að aftur verði iðandi mannlíf í þessu glæsilega húsi, sem setur svo sterkan svip á borgina,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri á Hótel Sögu. „Margir eiga góðar minningar tengdar húsinu og hafa sterkar skoðanir á nýju hlutverki þess og hvernig hlutum hér verði fyrir komið. Góðu heilli finnst mér sem nýir eigendur séu áfram um að halda sögu byggingarinnar til haga og halda, eins og tök leyfa, í einstaka hönnun þess.“

Tómlegt á Mími

Milli jóla og nýárs var gengið frá kaupum ríkisins og Félagsstofnunar ríkisins á Bændahöllinni við Hagatorg í Reykjavík, öðru nafni Hótel Sögu. Viðræður um kaupin við Bændasamtök Íslands, sem áttu húsið, höfðu staðið lengi. Skiptingin er sú að ríkið eignast 73% hlut í byggingunni og eftirlætur Háskóla Íslands fyrir starfsemi menntavísindasviðs. Félagsstofnun stúdenta eignast 27% og fær 4.-7. hæð í norðurálmu þar sem verða samtals 113 stúdíóíbúðir fyrir námsmenn.

Á jarðhæð hótelsins er nú orðið tómlegt um að litast. Flest hefur til dæmis verið fjarlægt úr Mími, veitingastaðnum sem þótti einn sá besti í bænum. Við sitjum með Ingibjörgu í gestamóttöku hótelsins og lítum yfir sviðið. Burðarkarlar koma í hús, færa til borð og stóla og milli salarkynna. Nýir eigendur fá, samkvæmt áætlun, einstaka hluta byggingarinnar afhenta einn af öðrum – og þá tekur við að breyta og bæta húsakynni í samræmi við nýtt hlutverk.

Arkitekt að Bændahöllinni var Halldór H. Jónsson. Stílbragð hans fer ekki á milli mála, en Ingibjörg telur þó að fyrirmyndin sé að einhverju leyti SAS Royal-hótelið við Vesterbrogade í Kaupmannahöfn, sem margir Íslendingar þekkja.

Fagmennska og nýjungar

„Hótel Saga var alltaf í fararbroddi og við opnun hér árið 1962 kom alveg ný vídd í íslenskt samfélag,“ segir Ingibjörg. „Á Grillinu hér á 8. hæð störfuðu fremstu matreiðslumenn landsins og stjórnendur hótelsins létu sér annt um fagmennsku. Kokkarnir fengu svigrúm til að þróa nýjungar í matargerð og þaðan komu áhrif sem víða gætti.“

Ingibjörg Ólafsdóttir kom til starfa í gestamóttökunni á Hótel Sögu árið 1984, þá tvítug að aldri. Henni þótti þá strax sem hún væri komin í framandi veröld og spennandi. Vann sig fljótt til ábyrgðar á hótelinu sem Konráð Guðmundsson stýrði þá. Um skeið starfaði Ingibjörg annars staðar en tók svo við stjórn á Hótel Sögu í byrjun árs 2012. „Á Hótel Sögu komu gestir víða að úr veröldinni, bæði almennir ferðamenn og líka áberandi fólk úr menningu og viðskiptalífi. Fyrr á árum voru Alli ríki frá Eskifirði og Jean-Pierre Jacquillat, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hér fastagestir og stundum á sama tíma. Gjarnan sátu þeir hér saman og spiluðu bridds og töluðu þó hvorugur tungumál sem hinn skildi. Spilamennskan var þeim allt og svo þurftu þeir alltaf að fá með sér tvo til viðbótar.“

Lengi og alveg fram á síðari ár tíðkaðist að erlendir þjóðhöfðingjar í Íslandsheimsóknum gistu á forsetasvítu Hótel Sögu, sem er í suðurenda 7. hæðar. Í raun er herbergi 730 heil íbúð; svefnherbergi, bað og rúmgóð stofa, með útsýni til austurs, suðurs og vesturs. Fyrir framan svítuna er herbergi fyrir aðstoðarfólk, en frammi á ganginum sátu gjarnan lífverðir hinna tignu gesta. Meðal þeirra sem gist hafa þarna má nefna Lyndon B. Johnson sem kom til Íslands sem varaforseti Bandaríkjanna árið 1963. Þá hefur Hillary Clinton gist þarna, rétt eins og hið norræna kóngafólk; Margrét Þórhildur, Karl Gústaf og Ólafur hinn norski. Einnig má nefna tónlistarfólk; Ellu Fitzgerald, Louis Armstrong, Leonard Cohen, söngkonuna Dionne Warwick og stórtenórinn Pavarotti. Listinn gæti verið lengri.

„Komum erlendra þjóðhöfðingja fylgdu bæði miklar öryggisráðstafanir og ýmis formsatriði,“ segir Ingibjörg. Bætir við að á stóru hóteli gerist annars margt og þar birtist mannlífið í hnotskurn. Ýmsir kvikmyndagerðarmenn hafa raunar að undanförnu nýtt síðustu forvöð að filma á Hótel Sögu svo sem á Grillinu. Þar var á sínum tíma tekið upp sannsögulegt atriði í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar Englar alheimsins frá 2000, þegar sjúklingar af Kleppi komu þangað í mat. Létu svo lögregluna fjarlægja sig auralausa.

Sálin fór með starfsfólkinu

Salarkynnin á Hótel Sögu eru mikil og herbergin alls 235. Ingibjörg segir þessa stærð um margt vera hagkvæma og eftir breytingar sem gerðar voru á hótelinu á árunum 2017-2019 hafi verið sköpuð skilyrði fyrir góðum rekstri. Endurbæturnar hafi þó verið dýrar og þegar ferðamönnum fækkaði í kjölfar falls WOW air og síðar með heimsfaraldri hafi borgin hrunið. Síðla árs 2020 var öllum starfsmönnum hótelsins sagt upp og rekstrarfélagið Hótel Saga ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta á síðasta ári.

„Eitt hið erfiðasta sem ég hef gert um dagana var að segja upp starfsfólkinu hér, alls um 100 manns. Sálin fór svolítið úr húsinu með því. Annars er góður andi í byggingunni og auðvitað líka vofur á sveimi eins og gjarnan er í stórum byggingum. En þetta eru góðir draugar og hljóðin sem þeir senda frá sér eru oftast bara vatnselgur í leiðslum, suð í loftræstingu og slíkt,“ segir Ingibjörg sem í umboði Bændasamtaka Íslands starfar nú við skil á byggingunni til nýrra eigenda. Þegar því ljúki rói hún á ný mið – og sagan heldur áfram.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 6. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert