Sagðist undanþeginn grímuskyldu að læknisráði

Lögreglan var kölluð og ræddi við málsaðila.
Lögreglan var kölluð og ræddi við málsaðila. mbl.is/Eggert

Lögregla var kölluð til í dag vegna viðskiptavinar sem neitaði að bera grímu í verslun af heilsufarsástæðum. Maðurinn vísaði fram læknisvottorði til sönnunar þess og gat klárað innkaupin.  

„Viðskiptavinurinn sem um ræðir er af erlendu bergi brotinn og framvísaði á vettvangi vottorði frá hans heimalandi þess efnis að hann sé undanþeginn grímuskyldu út af veikindum,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, í samtali við mbl.is.

Sjalfgæf tilfelli

Starfsmaður verslunarinnar kom að máli við manninn í upphafi en kallaði síðan til lögreglu þegar viðskiptavinurinn varð ekki við beiðni hans um að setja upp grímu.

„Hann var dálítið æstur, en lögregla miðlaði málum á staðnum, viðskiptavinurinn og starfsmenn verslunarinnar skildu sáttir,“ segir Ásgeir

Maðurinn gat að lokum klárað innkaupin sín þó það hefði verið með „óhefðbundnum hætti“. 

Tilfelli sem þessi, þar sem fólk neitar að bera grímu og ber við læknisráði, eru afar sjaldgæf að sögn Ásgeirs og koma upp einu sinni í viku eða sjaldnar.

Auk þessa var tilkynnt um innbrot í geymslur fjölbýlishúss en annars hefur dagurinn verið rólegur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert