Skólaverkefnið varð að ofurhjólakeppni

Rannsókn Halldóru í ferðamálafræði snerist um upplifun hjólaferðamanna á Vestfjörðum. …
Rannsókn Halldóru í ferðamálafræði snerist um upplifun hjólaferðamanna á Vestfjörðum. Hún segir upplifun allra hafa verið stórkostlega og hugmyndin að Cycling Westfjords hafi kviknað í kjölfarið. Ljósmynd/Cycling Westfjords

Í sumar fer í fyrsta sinn fram ný fjöldægra ofurhjólakeppni á Vestfjörðum, en um er að ræða keppni sem skiptist í fjórar dagleiðir yfir fimm daga. Samtals verða hjólaðir 930 km og verður hækkun á við einn og hálfan til tvo Hvannadalshnúka á hverjum degi. Keppnin er hluti af stærra hjólaverkefni á Vestfjörðum sem setur upp þrjár hjólaáskoranir fyrir ferðamenn eða áhugasama Íslendinga sem vilja reyna sig við firðina og heiðarnar fyrir vestan.

Halldóra Björk Norðdahl rekur verslun á Ísafirði en var nýlega í námi í ferðamálafræði. Rannsókn hennar þar var um upplifun reiðhjólaferðamanna á Vestfjörðum og spratt verkefnið upp úr rannsókninni. Halldóra segir við mbl.is að upplifun allra sem hún ræddi við hafi verið stórkostleg. Hins vegar var ljóst að það mátti gera aðeins meira, bæði til að kynna áfangastaðinn og til að halda utan um ævintýrið.

Halldóra Björk á góðri stund hjólandi um Vestfirskar heiðar.
Halldóra Björk á góðri stund hjólandi um Vestfirskar heiðar. Ljósmynd/Cycling Westfjords

Ásamt Halldóru komu þrír aðrir einstaklingar að því að taka þetta verkefni áfram og úr varð Cycling Westfjords. „Við áttum lítið sameiginlegt nema áhuga á hjólreiðum á Vestfjörðum,“ segir hún. Hópurinn samanstendur af Ómari Smára Kristinssyni sem hefur gefið út átta hjólabækur, Nanný Guðmundsdóttur hjá Borea adventures, Tyler Wacker sem er í námi í háskólasetrinu og svo Halldóru. Til viðbótar hefur Lynnee Jacks aðstoðað við keppnina.

Frá 809 km upp í 1.200 km hringi

Halldóra segir að samhliða námi sínu hafi hún hjólað Jakobsveginn á Spáni og þar hafi verið í boði fyrir fólk að skrá sig, safna stimplum og í lokin að fá viðurkenningaskjal. Segir Halldóra að hjá Cycling Westfjords sé svipuð hugmyndafræði, en til viðbótar bjóði félagið ferðalöngum upp á upphafspakka með góðgæti og upplýsingum um leiðina og þá sé í boði ákveðið bakland fyrir ferðalanga ef eitthvað kemur upp.

Tyler Wacker er einn hinna fjögurra sem koma að Cycling …
Tyler Wacker er einn hinna fjögurra sem koma að Cycling Westfjords, en auk þess starfar hann hjá háskólasetrinu og með lítið reiðhjólaverkstæði á Ísafirði. Ljósmynd/Cycling Westfjords

Leiðirnar sem hafa verið settar upp eru þrjár og draga nöfn sín frá þekktum fuglum. Stysta leiðin er Smyrillinn. Það er 809 km leið, þar af 18% á möl, með 11.300 metra hækkun (rúmlega 5,3 Hvannadalshnúkar). Svo er það Fálkinn sem er 1.044 km með tæplega þriðjung á möl. Samtals þarf þarf að klifra 15.000 metra (7,1 Hvannadalshnúkur). Að lokum er það lengsta og erfiðasta leiðin, Örninn. Þar er farin 1.200 km leið sem er að helmingi á möl, með 19.400 metra hækkun (9,2 Hvannadalshnúkar).

Halldóra segir að munurinn á þessum leiðum séu allskonar framhjáhlaup eða sleppt að fara útúrdúra. Þannig í stystu leiðunum sleppt að fara Fells- og Skarðsstrendurnar og í þegar kemur að Erninum sé t.d. farið Svalvoga, Breiðadalsheiði, Botnsheiði og upp á Bolafjall sem og Dranganeshringinn og þverað yfir Vestfjarðarhálsinn sunnar en annars er farið. Þannig sé hægt að sníða leiðirnar eftir getustigi hvers og eins sem á annað borð hefur gaman af hjólaferðalögum.

Lítil umferð, náttúra og breytileg vindátt

Spurð út í aðdráttarafl Vestfjarða sem hjólreiðaáfangastaðar segir Halldóra að fyrir utan náttúruna sé almennt mjög lítil umferð á vegunum. Það sé eitthvað sem hjólreiðafólk sé alla jafna spennt fyrir. Þá sé líka mjög lítið flatlendi í boði á Vestfjörðum. Hjólaleiðirnar séu því mest upp og niður, en líka inn og út firði. Með firðina hefur það þau áhrif að þeir sem eru að hjóla eru ekki í mótvindi allan daginn, heldur er kanski mótvindur út fjörðinn, en meðvindur inn hann. Segist hún sjálf hafa lent í því í hjólaferð erlendis að vera í mótvindi allan daginn og að hún kjósi fjölbreytnina umfram þá reynslu.

Þeir sem hjóla um Vestfirði geta átt von á nokkuð …
Þeir sem hjóla um Vestfirði geta átt von á nokkuð fjölbreyttu landslagi. Allt frá því að fara hátt upp á heiðar og svo niður að sjó. Ljósmynd/Rugile Kaladyte

Erlendir áhrifavaldar og ofurhjólreiðakona

„En svo bættist við mót sem datt upp í hendurnar á okkur,“ bætir Halldóra við. Þar á hún við ofurhjólakeppnina Westfjords Way Challenge. Hún segir að í fyrra hafi nokkrir áhrifavaldar komið og hjólað á Vestfjörðum og komið með hugmyndina að fjöldægra keppni, en slíkar keppnir þekkjast erlendis. Um var að ræða m.a. ljósmyndarann og ævintýramanninn Chris Burkard sem hefur dálæti á Íslandi og kemur hingað reglulega til að sigrast á ýmiskonar áskorunum og til að taka myndir. Með honum í för var einnig Lael Wilcox, en hún er ein þekktasta og sigursælasta konan í ofurhjólreiðum og hefur meðal annars sigrað 7.000 km keppni þvert yfir Bandaríkin og var þar einnig á undan öllum, bæði konum og körlum.

Halldóra segir að Cycling Westfjords-hópurinn hafi tekið þessa hugmynd upp á sína arma og keppnin sé nú fyrirhuguð sem millibilsleið á milli Smyrilsins og Fálkans, en leiðin fékk nafnið Krían. Er það samtals 930 km leið með 14.500 metra hækkun (6,9 Hvannadalshnúkar). Þá segir hún að bæði Burkard og Wilcox hafi verið dugleg að auglýsa keppnina á samfélagsmiðlum og því fái þau strax talsverðan meðbyr varðandi að koma keppninni á framfæri, en Burkhard er meðal annars með 3,7 milljónir fylgjenda á Instagram. Bæði hafa þau jafnframt staðfest þátttöku sína í sumar í fyrstu keppninni, en keppnin fer fram 28. júní til 3. júlí.

Þetta er þó ekki eina athyglin sem Vestfirðir hafa fengið í hjólasamfélaginu erlendis, því í lok desember birtist heimildarmynd um ferðalag hjólreiðakonunnar Jenny Graham um Vestfirði í fyrra. Birtist heimildarmyndin á einum fjölsóttasta hjólamiðli heims, GCN, en þar er jafnframt fjallað um Cycling Westfjords verkefnið.

Ekki fyrir hvern sem er

Halldóra tekur fram að keppnin sé ekki fyrir hvern sem er, enda yfir 200 km leið hvern keppnisdag, farið sé yfir fjölda heiða og þá þurfi einnig að bera með sér mest allan búnað. „Það fer ekkert hver sem er um 250 km á dag fjóra daga af fimm.“

Fyrsta daginn er hjólað frá Ísafirði inn Djúpið og yfir Steingrímsfjarðarheiði gegnum Drangsnes og í Bjarnarfjörð þar sem er gist. Samtals eru þetta 255 km og tæplega 3.000 metra hækkun. Halldóra talar þó enn um þetta sem einn af léttari dögunum, þó þetta sé lengsti staki leggurinn.

Næsta dag er haldið úr Bjarnarfirði, framhjá Hólmavík og niður Strandir áður en farið er yfir Laxárdalsheiði og út Fellsströndina. Samtals eru þetta 238 km og tæplega 3.900 metra hækkun. Þriðja daginn er svo farið fyrir Klofning og inn Skarðsströndina og gegnum alla Barðastrandasýslu og á Patreksfjörð. Dagleiðin er 228 km og 3.200 metrar í hækkun.

Dagleiðirnar fjórar eru mislangar og með mismikilli hækkun, en allar …
Dagleiðirnar fjórar eru mislangar og með mismikilli hækkun, en allar þeirra eru krefjandi. Kort/Cycling Westfjords

Ræsing á miðnætti

Eftir þessa þrjá daga gefst keppendum færi á að hvíla sig yfir daginn eða skoða nágrennið, en fjórða dagleið er svo ræst út á miðnætti. „Það er sól allan sólarhringinn og engin umferð,“ segir Halldóra og bætir við að þetta gefi keppninni vonandi smá áhugaverðan vinkil. Farið er frá Patreksfirði og yfir í Arnarfjörð og svo Svalvoga, Dýrafjörð og yfir Breiðdalsheiði á Ísafjörð þar sem keppninni lýkur formlega.

Menningarstopp hluti af ævintýrinu

Þrátt fyrir að hjólaferðalagið sé stærsti hluti keppninnar þá er hún að sögn Halldóru ekki bara hreinræktuð keppni. Þannig þurfa keppendur að taka menningarstopp á hverjum degi á fyrir fram ákveðnum stöðum þar sem tímatakan stoppar. Þetta eru t.d. heitar laugar og söfn sem eru á leið keppenda, en sem dæmi um slík stopp nefnir Halldóra Litla-Bæ, Hörgslaug og Dynjanda.

Tekin hefur verið frá gisting á gististöðum á öllum stöðum fyrir keppendur, en auk þess er í boði að gista í tjöldum og mun keppnin útvega þau að sögn Halldóru.

Vonast eftir 20-30 Íslendingum

Spurð út í hvað fjölda þátttakenda segir Halldóra að miðað sé við 100 keppendur. Opnað verður fyrir skráningu Íslendinga 18. Janúar, en Halldóra segir að miðað við erfiðleikastig keppninnar væri mjög flott ef 20-30% þátttakenda væru frá Íslandi. Miðað við áhuga erlendis frá gerir hún von á að fljótlega eftir að opnað verði fyrir skráningu erlendis frá, viku síðar, fylli þau keppendalistann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert