Biðröð minnir á ógnarlangan orm

Fólk bíður í bílum sínum eftir að komast í sýnatökur, …
Fólk bíður í bílum sínum eftir að komast í sýnatökur, sem eru í kjallara verslunarhúss Krónunnar. Lestin langa hlykkjast um vesturbæinn á Selfossi og er íbúum til ama, svo bæjaryfirvöld hafa gert athugasemdir. mbl.is/Sigurður Bogi

„Vonandi léttist á biðröðinni með þeim aðgerðum sem við undirbúum nú,“ segir Díana Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Flesta morgna er löng og á köflum tvöföld bílaröð við verslunarhús Krónunnar á Selfossi þar sem sýnatökur vegna Covid-19 fara fram.

Bílarnir eru á stundum í hundruðum og röðin, sem minnir helst á ógnarlangan orm, hlykkjast um göturnar vestast í byggðinni á Selfossi, nærri kirkjunni. Lest þessi blasir til dæmis við þegar komið er inn í bæinn úr vestri að Ölfusárbrú. Stundum getur tekið nokkrar klukkustundir að komast í próf – og á meðan gerir fólk sér biðina bærilega með því að líta í bók eða símann sinn. Þá hafa konur stundum sést taka upp prjónana sína.

Öngþveiti og óþægindi

Í bókun bæjarráðs Árborgar frá því á dögunum er til þess mælst að HSU leita allra leiða til að breyta fyrirkomulagi sýnatöku svo ekki skapist sú örtröð sem verið hefur að undanförnu í götum nálægt sýnatökustað. Öngþveiti þetta valdi íbúum, til dæmis við götuna Þóristún, talsverðum óþægindum. Telur bæjarráð ljóst að sýnatökustaðurinn í Krónunni anni ekki öllu því álagi sem þangað er beint. Um þetta segir Díana að vandinn sé ljós og sífellt sé reynt að finna leiðir til að létta á stöðunni.

Kalli er svarað

Eins og sagði frá í Morgunblaðinu á mánudag var stjórnendum HSU í síðastliðinni viku send áskorun 600 íbúa í Þorlákshöfn sem vilja sýnatökur þar í bæ. Ótækt sé að bæjarbúar þurfi að sækja slíka þjónustu á Selfoss eða til Reykjavíkur eins og nú er. Þessu kalli Þorlákshafnarbúa hefur nú verið svarað og ætlunin er að á morgun, fimmtudag, verði opnaður sýnatökustaður í Þorlákshöfn. Sá verður í ráðhúsi sveitarfélagsins við Hafnarberg, þar sem eru stór og rúmgóð salarkynni sem þykja henta vel fyrir þessa starfsemi. Securitas sér um sýnatökurnar, líkt og gert er á Selfossi og á Hvolsvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert