Draumasetrið hlýtur 500 þúsund króna styrk

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhendir þeim Elínu Örnu Arnardóttur og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhendir þeim Elínu Örnu Arnardóttur og Ólafi Hauki Ólafssyni, forstöðumönnum Draumasetursins styrkinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Ljósmynd/Aðsend

Draumasetrið, áfangaheimili fyrir fólk sem er að koma úr áfengis- og fíkniefnameðferð, fékk styrk upp á 500 þúsund krónur úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Draumasetrið er við Héðinsgötu í Reykjavík og var því komið á fót af hjónunum Elínu Örnu Arnardóttur og Ólafi Hauki Ólafssyni árið 2013.

Ekkert starfsfólk er á heimilinu fyrir utan þau hjón en heimilið var stofnað til þess að aðstoða fólk sem er að koma úr meðferð og veita þeim stuðning og aðhald til að komast aftur út í lífið.

Með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi

„Draumasetrið er gott dæmi um einkaframtak sem hefur samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi, og skýra sýn á þann hóp fólks sem þarf sérstakan stuðning til betra lífs í kjölfar meðferðar,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, í tilkynningu.

„Áhersla er lögð á að veita fólki tryggt og öruggt húsnæði, þar sem ríkir umburðarlyndi, umhyggja, fordómaleysi og ekki síst hvatning, sem er oft besta veganestið fyrir þá sem eru að fóta sig aftur á leiðinni út í lífið“

Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarð Briem 29. desember 1985 þegar liðin voru 75 ár frá fæðingu Gunnars.

Tilgangur sjóðsins er að veita styrk til einstaklinga eða hópa, stofnana eða félaga, á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála eða menningarmála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert