Framkvæmdir við fimm grunnskóla vegna myglu

Laugalækjarskóli.
Laugalækjarskóli. Ljósmynd/Af vef Reykjavíkurborgar

Unnið er að viðgerðum og endurbótum á fimm grunnskólum í Reykjavíkurborg þar sem greinst hefur mygla. Skólarnir eru Laugalækjarskóli, Fossvogsskóli, Hagaskóli, Korpuskóli og Laugarnesskóli.

Framkvæmdirnar eru mjög misjafnar að umfangi og málin á ólíkum stigum, að því er kemur fram í svari borgarinnar við fyrirspurn mbl.is.

Þar segir að borgin hafi ágæta yfirsýn varðandi myglu í skólum borgarinnar. Unnið sé eftir nýjum verkferlum sem fari í gang um leið og grunur sé um slæma innivist og brugðist sé hratt við öllum ábendingum.

Viðgerðir á fyrstu og annarri hæð

Viðgerðum á þremur skólastofum á annarri hæð Laugalækjarskóla vegna myglu er lokið og er búið að taka þær aftur í notkun. „Samkvæmt þessum nýju verkferlum eru gæði innivistar könnuð í nærliggjandi stofum eða tengdum svæðum þar sem mygla greinist og var það gert í Laugarlækjarskóla,“ segir í svarinu.

Svo virðist sem leki frá gluggum á suðurhlið hafi valdið samskonar vanda í skólastofum á fyrstu hæðinni og eru framkvæmdir vegna þess þegar hafnar.

Fram kemur einnig í svarinu að eignasvið borgarinnar hafi gengið frá leigusamningi við Knattspyrnusamband Íslands, sem er í næsta nágrenni við Laugalækjarskóla, þar sem búast megi við að vel fari um nemendur á framkvæmdatímanum.

„Niðurstöðurnar eru að sjálfsögðu vonbrigði en þegar var á áætlun að skipta út gluggum í skólanum næsta sumar,“ segir í svari við því hvort vandinn í Laugalækjaskóla sé meiri en talið var í fyrstu.

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert