Hvergi rætt meira um Covid en á Íslandi

Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur.
Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari segir lýðheilsu eilíft baráttumál; aldrei sé of mikið gert til að freista þess að bæta heilsu fólks og koma í veg fyrir allskonar kvilla. Það eigi ekki síst við á tímum sem þessum, enda sé hinn þráláti heimsfaraldur streituvaldandi fyrir marga, ekki síst eftir því sem á hann líður. 

Gauti segir marga alla jafna stunda einhæfa hreyfingu og varla hafi ræst þar úr í faraldrinum. Þegar fólk fái ekki almenna hreyfingu sé verið að bjóða hættunni heim. „Hafi einhvern tíma verið tækifæri til að vekja athygli á þessu þá er það núna; brýna mikilvægi almennrar og reglulegrar hreyfingar fyrir fólki,“ segir hann og hvetur fólk til að leita sér ráðgjafar, ef það sé óöruggt um hvernig það eigi að fara að.

Hann segir eðlilegt að höfuðáhersla sé á sóttvarnir á tímum sem þessum og heilbrigðiskerfið með þríeykið í broddi fylkingar hafi staðið sig svakalega vel í baráttunni gegn veirunni. „Það vantar bara að leggja meiri áherslu á hvað hver og einn getur gert til að hlúa að eigin heilsu. Það sá enginn fyrir að þessi faraldur myndi standa svona lengi og það er okkar sem vinnum í þessu umhverfi, sjúkraþjálfara, lækna og annarra, að benda á þessar afleiddu afleiðingar.“

Hættum að hlusta á neikvæðni í fréttum 

Gauta þykir ekki síður brýnt að huga að andlegu hliðinni og þyrmi yfir fólk eigi það að hætta að hlusta á neikvæðni í fréttum. „Það er mál sem fjölmiðlar þurfa líka að taka til sín. Auðvitað þarf að fjalla um faraldurinn, stöðuna, horfur og annað slíkt, en í öllum bænum leggið meira upp úr jákvæðari fréttum í bland. Fólk sem fer utan talar um hversu kærkomna hvíld það hafi fengið frá faraldrinum, hvergi í heiminum sé fjallað eins mikið um Covid og á Íslandi. Það er umhugsunarvert, ekki síst með hliðsjón af andlegri líðan.“

Enda þótt veiran yggli sig nú er Gauti sannfærður um að lokaspretturinn í þessu óvissumaraþoni sé loksins framundan. „Við erum búin að standa okkur vel fram að þessu en hvað gerum við á lokasprettinum? Það er undir hverjum og einum komið. Það er styttra í markið en margur heldur!“

Nánar er rætt við Gauta í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert