Segir skýra lagaheimild fyrir bólusetningarskyldu

Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Hanna …
Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, voru gestir á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Samsett mynd

Margrét Einarsdóttir prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir skýra lagalega heimild fyrir bólusetningarskyldu í Mannréttindasáttmála Evrópu en hún ásamt Hönnu Katrínu Friðriksson, þingflokksformanni Viðreisnar, voru gestir í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Margrét vitnaði í sáttmálann og nefndi dæmi úr annarri og áttundu grein hans.

Í annarri grein sé fjallað um jákvæðar skyldur ríkis til að standa vörð um líf almennings og áttunda grein snúi að skyldum ríkis þegar komi að heilsu almennings.

„Hluti af þessari skyldu felur í sér að stjórnvöld þurfa að grípa til ráðstafana til að vernda almenning, meðal annars gegn hættulegum smitsjúkdómum,“ sagði Margrét en frá og með 1. febrúar verður bólusetningarskylda í Austurríki, sem dæmi.

Rík lagafordæmi

Auk þess sé fjöldi lagafordæma sem staðfesta þá skyldu. Nýlegt dæmi sé frá Tékklandi í apríl á síðasta ári. Sá dómur hafi verið kveðinn upp í yfirdeild MDE, þar sem 17 dómarar sitja. Hann hafi því ríkt fordæmisgildi.

„Ef að foreldrar láta ekki bólusetja börn sín [í Tékklandi] þá eru þau sektuð og eins þá er börnunum synjað um aðgang að leikskóla,“ nefndi Margrét um bólusetningarskyldu fyrir öðru en Covid-19.
Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild HR.
Margrét Einarsdóttir, prófessor við lagadeild HR. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Foreldrar barns þar í landi hafi talið bólusetningarskylduna brjóta í bága við réttindi sín um friðhelgi einkalífs og leitað réttar síns.

„En Mannréttindadómstóllinn taldi að þetta stæðist vegna þess að í annarri málsgrein af ákvæðinu þá eru undanþágur, það er að ríkjum sé heimilt að grípa til takmarkana á friðhelgi einkalífs sé það nauðsynlegt heilsu almennings og almannaheill.

Þannig að það má leiða að því líkum að hann ætti einnig við um Covid.“

Heilsufar, innflytjendur og tortryggni

Hanna Katrín sagði stöðuna hér á landi ólíka öðrum ríkjum Evrópu sem séu að taka upp bólusetningarskyldu.

„Við erum í þeirri stöðu, kannski ólíkt mörgum öðrum þar sem yfirvöld hafa gengið hvað lengst, að hér er fólk mjög opið fyrir bólusetningum,“ sagði Hanna Katrín og bætti við að það væri því mjög ólíklegt að slíkar drastískar aðgerðir færu fram hér á landi.

Þeir sem óbólusettir eru hér á landi væri að mestu leyti fólk sem ekki getur fengið bólusetningu af heilsufarslegum ástæðum, innflytjendur sem stjórnvöld hafa ekki náð vel til og loks hópur fólks sem vill hana ekki af öðrum ástæðum sem ekki eiga við vísindalegan grunn að styðjast.

Það hlutfall sé ekki hátt og við hefðum því meira svigrúm til þess að taka samtalið með óbólusettum áður en gripið yrði til skyldu.

Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar.

Kæmi á óvart standist skyldan ekki

Margrét tók í svipaðan streng og sagði svigrúmið minna í öðrum löndum.

Þar standi þau frammi fyrir útgöngubanni annars vegar og bólusetningarskyldu hins vegar.

„Í Austurríki er bólusetningarhlutfallið undir 70 prósent. Við sjáum að ef óbólusettir tólf ára og eldri eru undir tíu prósent og við erum enn með 40 prósent af öllum sjúklingum á Landspítalanum óbólusettir þá getum við rétt ímyndað okkur álagið á heilbrigðiskerfið ef að þú ert með yfir 30 prósent óbólusetta.“

Austurrísk stjórnvöld séu því líklegast með haldbær rök, komi til dómsmála.

„Það kæmi mér verulega á óvart í ljósi dómafordóma, að Mannréttindadómstóllinn myndi ekki fallast á slík rök,“ sagði Margrét.

Stíga skuli varlega til jarðar

Hanna Katrín sagðist ekki þeirrar skoðunar að grípa skyldi til bólusetningarskyldu og sagði mikilvægt stíga varlega til jarðar varðandi takmarkanir á óbólusettum.

„Þegar kemur að virkilegu inngripi í daglegt líf fólks þá þarf að huga mjög varlega að því, af því þar er virkilega grátt svæði hvenær við erum komin yfir í skylduna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert