Starfsmenn SÁÁ mótmæla „harkalega“ ásökununum

Starfsmenn SÁÁ mótmæla ásökunum SÍ í yfirlýsingu.
Starfsmenn SÁÁ mótmæla ásökunum SÍ í yfirlýsingu. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Í yfirlýsingu frá starfsmönnum SÁÁ mótmæla þeir harkalega þeim ásökunum sem nú berast frá Sjúkratryggingum Íslands varðandi þjónustu sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar inntu af hendi á tímabilum þar sem ítrustu sóttvarna var krafist af yfirvöldum vegna heimsfaraldurs.

Þar segir að enginn kostnaðarauki hafi orðið til vegna aðgerða SÁÁ á göngudeild 2020 en yfirlýsingin er til komin vegna alvarlegra ásakana um starfshætti SÁÁ við reikningsgerð til SÍ á tímum heimsfaraldurs.

Er með þeirri málsmeðferð SÍ gróflega vegið að starfsheiðri, trúverðugleika og trausti starfsmanna og starfsemi SÁÁ,“ segir í yfirlýsingunni.

Jafnframt kemur fram að áfengis- og vímuefnaráðgjafar sinni árlega þúsundum einstaklinga í hópúrræðum á göngudeild og að slíkum hópúrræðum hafi ekki verið forsvaranlegt að halda úti í ströngustu samkomutakmörkunum vegna smithættu af Covid-19.

Vinnan unnin af heilindum og í góðri trú

Í þeim tilgangi að halda meðferðarsambandi, styrkja bata og koma í veg fyrir bakslag á meðan á takmörkunum stóð, lögðu starfsmenn SÁÁ á sig mikla vinnu á stuttu tímabili við að hringja út í skjólstæðinga og veita þeim upplýsingar, ráðgjöf og stuðning. Er þessi vinna, sem unnin var af heilindum og í góðri trú, nú gerð tortryggileg og jafnvel saknæm. Það er rétt að halda því til haga, að enginn fjárhagslegur ávinningur fyrir SÁÁ eða starfsfólk samtakanna, umfram gildandi samninga, gat hlotist af þessari vinnu,“ segir í yfirlýsingunni.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar, og allir starfsmenn SÁÁ, munu nú sem áður setja hagsmuni skjólstæðinga sinna í fyrsta sæti og kappkosta að veita áfram bestu mögulegu þjónustu á krefjandi tímum heimsfaraldurs,“ segir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert