Kjósendur Pírata mest hlynntir lausagöngu

Innikisi eða útikisi?
Innikisi eða útikisi? mbl.is/Kristinn Magnússon

Meirihluti landsmanna er hlynntur lausagöngu katta í sínu sveitarfélagi samkvæmt nýtti könnun Maskínu. 

Þar kemur fram að 64,9 prósent svarenda í könnuninni sögðust vilja leyfa köttum að vera lausir utandyra í sínu sveitarfélagi og 34,1 prósent sögðust ekki vilja það. 

Hlutfall kvenna á meðal þeirra er eru hlynnt lausagöngunni eru hærra en á meðal karla eða 71,9 prósent hjá konum og 58,2 prósent hjá körlum. 

Þá fer hlutfall þeirra sem eru hlynnt lausagöngunni fallandi eftir hækkandi aldri. 75,9 prósent á aldrinum 18 til 29 ára eru hlynnt henni en 52,4 prósent á aldrinum 60 ára og eldri. 

Samþykki lausagöngu er hærra á meðal íbúa í Reykjavík en annars staðar á landinu. Samþykkti fyrir lausagöngu er einnig hærra á meðal einhleypra en fólks í sambúð eða í hjónabandi. 

Kjósendur Miðflokksins eru ólíklegastir til að fella sig við lausagöngu katta en kjósendur Pírata líklegastir. 

Könnunin var lögð fyrir hóp sem dreginn var með tilviljanakenndri aðferð úr Þjóðskrá. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. 

Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn,aldur og
búsetu, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega. Við vigtun svara getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun.
Könnunin fór fram dagana 5. til 16. nóvember 2021 og voru svarendur 810 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert