Kennt um sjálfsvíg kærastans

„Þegar ég var tvítug átti ég kærasta og hinn 19. …
„Þegar ég var tvítug átti ég kærasta og hinn 19. ágúst 2006 fremur hann sjálfsmorð eftir rifrildi við mig. Öll fjölskyldan hans og vinir kenndu mér um og ég mátti ekki mæta í jarðarförina,“ segir leikkonan Elma Stefanía sem gerir það nú gott í Evrópu. Ljósmynd/Edda Pétursdóttir

Höf og lönd skilja að blaðamann og viðmælanda þannig að úr Garðabæ er hringt myndsímtal til Berlínar í Elmu Stefaníu Ágústsdóttur leikkonu. Þar býr hún ásamt dætrum tveimur, þeim Ísold og Ídu, og manni sínum Mikael Torfasyni rithöfundi, handritshöfundi og leikstjóra. Elma kemur sér fyrir á skrifstofu eiginmannsins og það glittir í stútfulla bókahillu fyrir aftan hana. Ída litla er heima í sóttkví, en þar er staðan svipuð og hér og annar hver maður fastur heima.

Ída, sem er fjögurra ára, skilur ekki hvers vegna hún fær ekki óskipta athygli mömmu sinnar og tilkynnir hátt og snjallt að allir séu uppteknir! Mikael stekkur til og sinnir litlu dömunni á meðan mamman spjallar, en það er sannarlega margt á döfinni hjá Elmu og nóg að tala um. Elma leikur aðalhlutverk í nýrri kvikmynd sem ber nafnið Dimmalimm en það er einmitt eiginmaðurinn sem skrifar handritið, leikstýrir og kvikmyndar. Dæturnar leika einnig í myndinni þannig að Dimmalimm er sannkallað fjölskylduverkefni. Við ræðum líka um listina, ástina, tilveruna og harmleikinn sem fylgir Elmu bæði í leiklistinni og lífinu sjálfu.

Byrjaði bara að moka

Fyrir nokkrum árum ákvaðu hjónin að freista gæfunnar utan landsteinanna.

„Mikki var þá byrjaður að skrifa fyrir þýskt leikhús og við ákváðum að flytja út til Berlínar og sjá hvað myndi gerast. Ég byrjaði á að læra þýsku og svo þegar ég hafði lært hana í þrjá mánuði bauðst mér að vinna í Hamborg og Vín,“ segir Elma, sem þurfti þá að velja á milli.

Elma Stefanía og Mikael kynntust á Facebook fyrir tíu árum …
Elma Stefanía og Mikael kynntust á Facebook fyrir tíu árum og það varð ekki aftur snúið. Þau vinna mikið saman að ýmiss konar kvikmyndaverkefnum.

„Ég fór í prufu fyrir hlutverk Nóru í Dúkkuheimilinu og í prufunni lék ég á móti leikara sem hafði leikið í 127 sýningum á verkinu. Prufan gekk svo vel að ég fékk samning á staðnum,“ segir Elma og segir fjölskylduna þá hafa flutt til Vínar eftir tæpt ár í Berlín og lék hún þar á sviði hjá hinu virta Burgtheater.

Elma segir það vissulega hafa verið mikla áskorun að leika á þýsku og hún hafi fengið sér talþjálfara hjá leikhúsinu.

„Þetta var mjög erfitt fyrst. Þegar ég horfi til baka skil ég ekki hvað ég var að pæla en ég gerði þetta bara.“

Þú veður bara í verkin?

„Já, ég byrja bara að moka.“

Tæmdum íbúðina daglega

Eftir mörg ár í vinnu tengdri leikhúsi eru hjónin nú búin að stíga skrefinu lengra.

„Við erum bæði búin að færa okkur út í kvikmyndabransann. Heimurinn hefur breyst svo mikið í Covid að við gætum í raun búið hvar sem er í heiminum,“ segir Elma.

„Mig dreymir um að verða stór evrópsk leikkona. Mig dreymir …
„Mig dreymir um að verða stór evrópsk leikkona. Mig dreymir um að segja sögur og að þær komist út um allan heim. Ég vil hafa áhrif,“ segir leikkonan Elma Stefanía sem leikur í nýrri mynd, Dimmalimm, sem kemur út í haust. Ljósmynd/Edda Pétursdóttir

Hvernig komu kvikmyndatækifærin til þín?

„Ég sagði svo við leikhússtjórann í Vín að ég væri vissulega þakklát að fá að vera þarna en ef ég fengi gott kvikmyndahlutverk myndi ég segja já við því. Orkan mín tengdi ekki lengur við leikhúsið. Ég var bara búin í þessum leikhúsheimi; mig langaði í meira stuð og mig langaði í meira frelsi,“ segir hún og segist hafa hætt hjá Burgtheater en í raun ekki haft neitt í hendi.
Í fyrstu kórónuveirubylgju skrifaði Mikael handrit að mynd sem var „sérsniðin“ fyrir fjölskylduna í miðjum heimsfaraldri.

„Í bylgju númer tvö skutum við myndina. Hún heitir Dimmalimm á íslensku en Returning to Lulu á ensku. Hún er um konu sem kemur heim eftir tíu ár á geðsjúkrahúsi. Íbúðin hennar er tóm og hún hefur ekki séð barnið sitt lengi. Hún reynir að vinna úr sorginni,“ segir Elma og segist hafa leikið á íslensku, ensku og þýsku.

„Myndin gerist í Vín og við tókum hana upp í íbúðinni okkar í tuttugu daga, en við bjuggum í mjög fallegri íbúð í eins konar höll. Við tæmdum íbúðina á hverjum degi og skutum svo í tómri íbúðinni. Það var mjög mikið vesen; ég skil ekki eftir á hvernig við gerðum þetta,“ segir hún og hlær.

„Mikki var tökumaður, leikstjóri og handritshöfundur og ég lék og dætur okkar líka. Myndin er nú í eftirvinnslu og hefur fengið frábærar viðtökur, en Elísabet Ronaldsdóttir er að klippa hana núna. Þetta er pínulítið verkefni sem heldur áfram að stækka og ég get ekki beðið eftir að hún komi út, vonandi í haust.“

Hef farið í dimman dal

Elma segir Mikael hafa sótt innblástur á söguna af Medeu úr grískri goðafræði, en börn Medeu voru tekin af henni og hún endar á að drepa þau.

„Aðalpersónan heitir einmitt Eva Medea en innblásturinn kemur líka frá einangrun, innilokun, einmanaleika og þunglyndi. Þetta eru mjög þungar og mannlegar tilfinningar. Þetta er tragedía, en við höfum alltaf haft þörf fyrir sögur sem eru tragedíur, því þær sögur sameina okkur. Þegar við heyrum slíkar sögur skiljum við betur og getum betur sett okkur í spor annarra. Samkenndin vex. Þess vegna erum við að þessu,“ segir Elma og segir að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem eiginmaðurinn leikstýrir henni.

„Það getur alveg tekið á en það var samt mjög gott. Ég treysti honum auðvitað fullkomlega. Kostirnir eru þeir að hann þekkir mig best af öllum og veit hvað ég get.“

Nú er þetta mjög dramatískt hlutverk, hvernig var að vera inni í höfðinu á Evu Medeu í tuttugu daga?

„Það var virkilega erfitt. Ég varð svo hrædd. Sem móðir er svo erfitt að leika konu sem hefur misst barnið sitt frá sér, og það helltist stundum yfir mig panik. Þetta tók mikið á, en að sama skapi veit ég að þessi saga er merkileg. Þetta var líka mjög erfiður tími fyrir mig persónulega, að vera í miðjum faraldri, allt lokað og við í ókunnugu landi. Herinn var fyrir utan að keyra; það var útgöngubann.“

Elma vill helga sig kvikmyndaleik og kann að láta drauma …
Elma vill helga sig kvikmyndaleik og kann að láta drauma sína rætast. Ljósmynd/Edda Pétursdóttir

Elma bindur miklar vonir við myndina.

„Ég trúi því að þetta sé mikilvæg saga sem þarf að segja. Við erum að opna samfélagið um geðheilsu; um þunglyndi. Og núna í þessu ástandi sjáum við betur hvað geðheilsan er mikilvæg, því ef maður missir hana missir maður allt. Við þurfum að hlúa vel að okkur.“

Hefur þú sjálf upplifað þunglyndi?

„Já, ég er alveg með þunglyndi í mér. Ég hef alltaf verið mjög dugleg og skautað yfir það, en þarna kom það hart niður. Það er mjög skrítið að finna sig þar, sérstaklega þegar ég er þannig manneskja sem nýtur þess að vera til og horfa á eitthvað fallegt. Allt í einu sá ég ekkert fallegt. Ég sá ekki himininn þegar hann var blár. Ég varð líka mjög viðkvæm fyrir hávaða. Ég var bara mjög brotin í þessu Covid-ástandi.“ 

Fannst að ég ætti að bera þennan kross

Elma þekkir harmleik af eigin raun og talar nú í fyrsta sinn um sinn eigin harm. Því eins og Elma segir þá þurfum við að heyra sögur af harmleik svo að við lærum að setja okkur í spor annarra og fáum samkenndina til að vaxa.

„Ég hef aldrei sagt neinum þetta; ég er ekki manneskja sem ber tilfinningar sínar á torg,“ segir Elma og þarf að draga andann djúpt.

„Þegar ég var tvítug átti ég kærasta og hinn 19. ágúst árið 2006 fremur hann sjálfsvíg eftir rifrildi við mig. Öll fjölskyldan hans og vinir kenndu mér um og ég mátti ekki mæta í jarðarförina. Mér var sagt að ég ætti að fara í fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Ef ég hitti einhvern tengdan honum niðri í bæ var mér hótað; mér var gerð grein fyrir því að ég ætti ekki að láta sjá mig. Það væri hættulegt,“ segir Elma og tárin spretta fram, enda sárt að rifja upp verstu minningar lífsins.

Elma segir nú mál að opna sig og segja frá.

„Ég fór að hugsa um alla þá sem sitja eftir; um þá sem kennt er um svona,“ segir Elma og segist hafa óttast hefnd frá hans nánustu lengi á eftir.

Jafnvel árum síðar laust þeirri hugsun niður í huga Elmu.

„Stundum áður en ég fór á svið í Þjóðleikhúsinu hugsaði ég: „Ætli einhver þeirra sé hérna, ætli einhver sé með byssu?“ En óttinn hvarf alltaf eins og dögg fyrir sólu þegar ég steig á svið,“ segir hún og segist líka hafa misst flesta vini sína á þessum tíma.
„Mér fannst að ég ætti að bera þennan kross, þó að ég kenndi mér ekki beint um. Ég var bara tvítug og þurfti að lifa með þessu.“

Þegar ár og dagar liðu, fór fólk ekki að sjá að sér og hætta að kenna þér um?
„Besti vinur hans tók líf sitt nokkrum árum síðar. Þá kom ein fyrrverandi vinkona mín til mín og baðst afsökunar og sagðist nú sjá að sjálfsmorðið hefði ekki haft neitt með mig að gera. En nei, fólk sá það ekki,“ segir Elma og segir engan hafa haft samband í öll þessi ár.

Sár sem geta gróið

„Við lendum öll í einhverju í lífinu. Kannski er einhver sem les þetta sem lent hefur í svona og sér að það er hægt að komast í gegnum þetta og maður getur látið drauma sína rætast. En maður þarf að berjast fyrir þeim samt,“ segir Elma og segist ekki hafa fengið mikla hjálp eftir áfallið við að missa kærastann og vera svo kennt um dauða hans.

„Presturinn reyndi að tala við fólkið hans en þau vildu ekki hlusta,“ segir Elma og útskýrir að þau hafi verið saman í átta mánuði áður en hann svipti sig lífi. Þau voru á leið í sambúð þegar harmleikurinn gerðist.

Hún minnist kærastans sem fór alltof fljótt.

„Hann jós persónutöfrum, söng og spilaði á gítar og var hrókur alls fagnaðar. Gullfallegur. Þetta var stormasamt samband og mikið fyllerí og hann var búinn að reyna oft að taka sitt líf. Hann braut eitt sinn glerið í útidyrahurðinni og tók gler og reyndi að skera sig. Ég reif af honum glerið og bað hann að drepa sig ekki og bað hann að leita sér hjálpar. Maður reynir auðvitað að koma í veg fyrir svona en það er erfitt ef manneskjan er búin að ákveða það,“ segir Elma.

„Við sitjum eftir og skiljum ekki hvað gerðist en fólk sem tekur líf sitt er yfirleitt búið að hugsa oft um það og það gengur í gegnum mörg stig áður en það lætur verða af því. Þótt það líti út fyrir að það sé framið í stundarbrjálæði er yfirleitt aðdragandi. Þetta er sjúkleiki. Svo sitja allir eftir í sárum,“ segir hún og segist ekki hafa verið hjá honum þegar hann loks lét verða af því.

„Ég kom að honum daginn eftir. Hann var búinn að skjóta sig. Ég vildi ekki trúa því sem ég sá og reyndi að vekja hann en fann svo að blóðið var kalt. Ég reyndi að snúa honum við en það tókst ekki sem betur fer, því andlit hans var farið af,“ segir Elma og þurrkar tárin.

„Þetta eru sár sem geta gróið. Þótt ég gráti núna þá græt ég ekki á hverjum degi. En nú vil ég vera óhrædd og stíga inn í óttann og segja frá þessu. Fólk á að passa sig að taka utan um alla sem eiga í hlut. Það er svo fallegt ef fólk getur tekið utan um kærustuna eða kærastann sem eftir situr.“ 

Ítarlegt viðtal er við Elmu Stefaníu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218.

Píeta-sam­tök­in bjóða einnig uppá ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.  

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.





Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert