Starfsemi SÁÁ verður óbreytt

Starfsemi samtakanna SÁÁ verður óbreytt.
Starfsemi samtakanna SÁÁ verður óbreytt. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Framkvæmdastjórn SÁÁ hafði fyrst afspurn af máli Einars síðastliðinn föstudag og á fundi með Einari fékkst það staðfest og hann tilkynnti þá uppsögn sína,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir stjórnarmaður SÁÁ í samtali við mbl.is.

Einar Hermannsson sagði af sér formennsku í SÁÁ fyrr í dag. Ástæðan er sú að hann svaraði auglýsingu á netinu fyrir nokkrum árum þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu. Sagði hann ljóst að umræða um það mál væri einungis til þess fallin að varpa rýrð á SÁÁ ef hann myndi áfram sitja sem formaður.

Nýr formaður kosinn mjög fljótlega

Anna Hildur sagði stjórnina ekki hafa meira um málið að segja að svo stöddu en að boðað yrði til fundar í aðalstjórn SÁÁ mjög fljótlega. Þá verður nýr formaður kosinn.

Anna Hildur gegnir stöðu talsmanns stjórnarinnar meðan Sigurður Friðriksson varaformaður er í veikindaleyfi en Ásgerður Björnsdóttir, fjármálastjóri samtakanna, mun svara þeim vinnuerindum sem berast.

Aðspurð segir Anna Hildur að starfsemi SÁÁ og Vogs muni ekki skerðast í kjölfar tilkynningarinnar.

„Starfsemi samtakanna er óbreytt og það er mjög mikilvægt,“ segir Anna Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert