Sýknað af 140 milljóna kröfu lögreglumanns

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af rúmlega 140 milljóna króna kröfu fyrrverandi lögreglumanns en hann krafðist bóta þar sem skipunartími hans var ekki framlengdur þegar honum lauk.

Málið snerist um ákvörðun lögreglustjórans á Vesturlandi að auglýsa embætti mannsins, sem var lögreglumaður á Vesturlandi, laust til umsóknar þegar fimm ára skipunartíma hans var lokið. Þegar maðurinn óskaði skýringa á ákvörðun lögreglustjóra var honum sagt að ástæðan væru samskiptaörðugleikar hans og annarra starfsmanna embættisins.

Samstarfsfólk mannsins hafði ítrekað kvartað yfir framkomu hann og honum var því tilkynnt árið 2018 að vegna þessara samstarfsörðugleika kæmi til greina að auglýsa stöðu hans lausa til umsóknar. Síðar bárust frekari kvartanir frá tveimur lögreglukonum sem sögðust þreyttar yfir ástandinu og íhuguðu að hætta störfum. Auk þess kvörtuðum fimm starfsmenn til fagráðs lögreglu vegna eineltis mannsins.

Ekki haft að hafa réttmætar væntinga til þess að skipun standi lengur en skipunartími

Sagði í niðurstöðu dómsins að embættismaður gæti ekki haft réttmætar væntingar um að skipun hans standi lengur en segir í skipunartíma enda er unnt að auglýsa embætti hans laust til umsóknar að loknum skipunartíma. Taldi dómstólinn að ákvörðunin hafði verið tekin á grundvelli skýrrar lagaheimildar.

Sagði í dómnum að ekki væri annað séð en að málefnaleg sjónarmið hafi legið að baki þeirri ákvörðun lögreglustjórans á Vesturlandi að auglýsa umrætt embætti lögreglumanns laust til umsóknar. Lá að baki henni löng saga samstarfsörðugleika stefnanda við samstarfsmenn sína sem yfirmenn embættisins höfðu rætt ítrekað við stefnanda yfir langt tímabil og gert honum grein fyrir. Þar að auki lægi ekkert fyrir um að lögreglustjórinn hafi reynt að koma sér hjá því að fylgja lögboðinni málsmeðferð við meðferð málsins eða að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst er ákvörðun var tekin. 

Auk þess hafnaði dómstólinn því að meðalhófs hafi ekki verið gætt við töku ákvörðunarinnar og að fyrrverandi lögreglumaðurinn hafi átt sjálfstæðan rétt til að koma að andmælum. Þá var því hafnað að lögreglustjóra hafi borið að bíða niðurstöðu fagráðs lögreglu áður en ákvörðun var tekið enda málið nægilega upplýst.

Hér má lesa dóminn í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert