Að öllu óbreyttu mun engin loftrýmisgæsla verða viðhöfð á Íslandi mestmegnis aprílmánaðar eftir að portúgalski flugherinn lýkur störfum sínum hér á landi í lok mars.
Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Portúgalski flugherinn kom hingað í lok janúarmánaðar og hefur annast loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins undanfarnar vikur. Er starfstími þeirra nú ríflega hálfnaður en Portúgalarnir munu ljúka sínu verkefni í lok mánaðar.
Ítalski flugherinn mun síðan taka við loftrýmisgæslu hér á landi í lok apríl, að öllu breyttu, eða um mánuði síðar.
Frá því að herinn fór árið 2006 hefur ekki verið viðvarandi loftrýmisgæsla hér á landi. Þess í stað er loftrýmisgæsla viðhöfð þrisvar sinnum á ári, nokkrar vikur í senn.
Í samtali við mbl.is fyrr í vikunni sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra að ekki væri útilokað að einhverjar breytingar verði gerðar á loftrýmisgæslu á Íslandi í ljósi breyttrar heimsmyndar vegna stríðsins í Úkraínu.
Hún sagði þörf á viðverandi loftrýmisgæslu þó ekki hafa verið tekin til formlegrar umræðu en henni þótti líklegt að endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi yrði rætt.
„Það að varnaráætlanir NATO, allar fimm, hafi verið virkjaðar felur í sér möguleika á aukinni viðverðu þannig að loftrýmisgæsla er eitt af því sem getur komið til umræðu. En það hafa engar ákvarðanir verið teknar um breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið um árabil,“ sagði Þórdís í samtali við mbl.is.