Hafði hugsað sér að eyða deginum í annað

Arnar Pétursson sigurvegari Puffin Run 2022.
Arnar Pétursson sigurvegari Puffin Run 2022.

„Þetta var mjög skondið því ég ætlaði ekkert að fara að hlaupa,“ segir Arnar Pétursson sem gerði sér lítið fyrir og sigraði Puffin Run í karlaflokki í Vestmannaeyjum í gær. Hann bætti brautarmetið um 4.54 mínútur og fór 20 km hringinn á 01:17:55 mínútum. Í fyrra átti brautarmetið Þorsteinn Roy, sem fór hringinn á 01:22:09 mínútum. Í mótinu tóku þátt um 1200 manns og Andrea Kolbeinsdóttir varð hlutskörpust kvenna í 20 km hlaupinu með tímann 01:26:24.

Maxime Sauvageon, Andrea Kolbeinsdóttir sigurvegari í kvennaflokki, Kristján Svanur Eymundsson, …
Maxime Sauvageon, Andrea Kolbeinsdóttir sigurvegari í kvennaflokki, Kristján Svanur Eymundsson, Þorsteinn Roy, Snorri Björnsson og Grétar Guðmundsson.

„Ég var með annað planað fyrir laugardaginn og búinn að taka hörku æfingu um morguninn og verið að lyfta og var bara að horfa á sjónvarpið þegar Elvar Páll vinur minn hafði samband og sagðist vera að fara í hlaupið og ég ákvað bara að skella mér með á föstudagskvöldinu,“ segir Arnar.

Þetta er í fyrsta skipti sem Arnar tekur þátt í Puffin Run og hann segist ekki hafa verið viss um hvernig þetta myndi ganga og hvort hann yrði þreyttur á laugardeginum með harðsperrur. „En aðstæðurnar voru mjög góðar og ég held að flestir hafi verið að klæða sig of vel, en ég var bara í hlírabolnum því veðrið var gott þótt að það væri svolítill vindur eins og er alltaf þarna.“

Arnar segir að brautagæslan hafi verið mjög góð og leiðin virkilega skemmtileg. „Ég var virkilega sáttur við að ná að bæta brautarmetið svona vel,“ segir Arnar. Hann segir að fyrsta hækkunin í hlaupinu hafi verið erfiðust. „Það er oft þannig. Maður byrjar að hlaupa flata kafla og síðan þegar maður fer upp eyjuna er fyrsta hækkunin erfiðust, en svo kemst maður í gírinn. Það er samt erfiðast fyrir fótinn að hlaupa í hrauninu í lokin, þar sem það er svolítið eins og að hlaupa eitt skref áfram og hálft afturábak,“ segir hann hress.

Skjáskot af Instagram reikningi Arnars Péturssonar.
Skjáskot af Instagram reikningi Arnars Péturssonar.

„Heyrðu gamli, þú hér?"

Það kom flatt upp á marga keppendur að sjá Arnar mæta á svæðið, því hann er duglegur að pósta um hlaup sín á instagramminu sínu  arnarpeturs og þar var ekkert minnst á Puffin Run. „Já, það kom alveg svipur á suma, en við erum allir góðir vinir. Það var meira svona: Heyrðu gamli, þú hér,“ segir hann og hlær.

Arnar sagðist ekki hafa skellt sér á ball í Eyjum eftir hlaupið. „Vinur minn Doctor Victor var að spila á Lundanum og ég skellti mér þangað í smástund,“ segir hann.

Framundan hjá hlaupagarpinum er  Brekkuhlaup Breiðabliks sem er 26. maí. „Það er mjög skemmtilegt 15 km upplifunarhlaup þar sem hlaupið er í Kópavoginum og m.a. farinn hinn frægi himnastigi,“ segir Arnar, en hann hafði hönd í bagga með að setja hlaupið upp.

Úrslit í Puffin Run

Karlar 20 km
1. sæti Arnar Pétursson á tímanum 01:17:55
2. sæti Morsi Rayyan á tímanum 01:19:44
3. sæti Þorsteinn Roy Jóhannsson á tímanum 01:19:59

Konur 20 km
1. sæti Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 01:26:24
2. sæti Íris Anna Skúladóttir á tímanum 01:34:36
3. sæti Thelma Björk Einarsdóttir á tímanum 01:38:29

Boðhlaup karla (2x10km)
1. sæti Strákarnir hans Sigga P
Valur Elli Valsson / 00:43:10
Hlöðver Jóhannsson / 00:52:46
Heilartími: 1:35:54

Boðhlaup kvenna (2x10km)
1. sæti Sóley og Thelma
Sóley Haraldsdóttir / 01:05:44
Thelma Gunnarsdóttir / 01:08:30
Heildartími: 2:14:13

Boðhlaup blandað lið (2x10km)
1. sæti Besta Deildin
Egill Eiríksson / 00:51:05
Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir / 00:56:47
Heildartími: 1:47:51

Boðhlaup karla (4x5km)
1. sæti GABB
Erlendur Ágúst Stefánsson / 00:24:38
Bjarni Kristinsson / 00:32:37
Bragi Magnússon / 00:34:13
Garðar Sigurjónsson / 00:38:36
Heildartími: 2:10:02

Boðhlaup kvenna (4x5km)
1. sæti Stella í orlofi
Heida Halldorsdottir / 00:31:41
Helga Lára Grétarsdóttir / 00:32:04
Lína Ágústsdóttir / 00:32:35
Helga Daníelsdóttir / 00:35:21
Heildartími: 2:11:39

Boðhlaup blönduð lið (4x5km)
1. sæti The Pöffins
Davíð Stefán Guðmundsson / 00:30:52
Guðmundur Sigmarsson / 00:33:10
Sigurrós Pétursdóttir / 00:33:31
Olga Bjarnadóttir / 00:35:54
Heildartími: 2:13:25

Vestmannaeyjameistarar:

karla: Hannes Jóhannsson 01:31:30

Kvenna: Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 01:54:11

Elsti keppandinn var Pam Hansen fædd 1943 og er frá Kanada. Hún fór hlaupið á 3 klst. og 54 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert