Haraldur vísar ásökunum Sveins á bug

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Sveinn Óskar Sigurðsson, oddviti Miðflokksins …
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, og Sveinn Óskar Sigurðsson, oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ. Samsett mynd

Sveinn Óskar Sigurðsson, oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ, gagnrýndi skipulagsmálin í bænum í Dagmálum. Hann telur ekki gæta jafnræðis við hverja bærinn semur við um byggingarframkvæmdir. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við mbl.is að ummæli Sveins séu alröng

„Þessi tímabil sem ég hef verið í Mosfellsbæ hafa aðallega gengið út á það að skipuleggja land tveggja bæjarstjóra. Leirvogstungu, fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur, og Hulduhólana fyrir bæjarstjórann.“

Móðir hans mótmælti ákvörðuninni

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við mbl.is að ummæli Sveins séu alröng og nefnir að móðir hans hafi á þeim tíma mótmælt fyrirhuguðum breytingum á  aðalskipulagi sem snéri að Hulduhólum, en hún vildi fá að hafa land sitt í friði fyrir íbúðabyggð. 

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann bendir á að þegar þessi ákvörðun var tekin hafi hann verið varabæjarfulltrúi sem og að sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í minnihluta í bæjarstjórn. Það var meirihluti Framsóknar og G-lista sem kynntu þessar breytingar á aðalskipulagi. 

„Hann er búinn að tala um þetta fyrir hverjar einustu kosningar, að reyna að koma einhverju höggi á mig og mína fjölskyldu og núna meira að segja þegar ég er ekki í framboði. Móðir mín, hún er reyndar orðin öldruð kona, er orðin frekar uppgefin á þessum þvættingi.“

Kom ekki nálægt þessu máli

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við mbl.is að hún sé ekki í pólitík og ætlar því ekki að blanda sér í eitt eða neitt sem Sveinn segir.

„Það er hægt að lesa um það sem að snýr að mér í öllum fundargerðum Mosfellsbæjar, hjá skipulagsnefnd og bæjarstjórn á meðan Leirvogstungan var skipulögð, það er bara þannig. Ég kom aldrei nálægt því máli þó að ég væri bæjarstjóri,“ segir hún og vísar þessum ásökunum á bug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert