„Næstum drukknaður“ í Reynisfjöru

Spænski ferðamaðurinn á hnánum í sandinum eftir að hann komst …
Spænski ferðamaðurinn á hnánum í sandinum eftir að hann komst upp úr sjónum. Nærstaddir ræða við hann. Ljósmynd/Sandra Pawłowska

Sjúkrabíll var kallaður að Reynisfjöru á sjöunda tímanum í gærkvöldi eftir að spænskur ferðamaður lenti þar í lífsháska.

Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, náði maðurinn að komast úr sjónum af sjálfsdáðum eftir nokkra stund. Áður höfðu nærstaddir ætlað að bjarga honum. Hann var kaldur og í miklu uppnámi þegar hann var kominn á þurrt land. 

Náð í björgunarhring.
Náð í björgunarhring. Ljósmynd/Sandra Pawłowska

Sjúkraflutningamenn skoðuðu hann í framhaldinu og reyndist hann vera í lagi, segir Oddur og bætir við að ferðamönnum hafi fjölgað mjög á svæðinu að undanförnu.

Spurður segist hann ekki muna eftir fleiri tilvikum sem þessum að undanförnu.

Ljósmynd/Sandra Pawłowska

Fór viljandi út í sjóinn

Sandra Pawłowska ljósmyndari, sem varð vitni að því sem gerðist í Reynisfjöru í gær, segir manninn hafa verið næstum drukknaður. Hann hafi farið viljandi út í sjóinn og farið úr fötum á meðan vinur hans myndaði hann.

Ljósmynd/Sandra Pawłowska

Hún segir atvikið hafa vakið hjá sér ótta og að nærstatt fólk hafi farið með börnin sín í burtu til að þau sæu ekki hvað var þarna að gerast.

Dauðsföll hafa orðið í Reynisfjöru, enda geta öldurnar þar orðið mjög stórar og hættulegar. Í nóvember síðastliðnum lést kínversk kona þar eftir að hafa farið út með öldu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert