Búið að ráðstafa skógarplöntum næstu tvö árin

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Eftirspurn skógarplantna til gróðursetningar hefur aukist verulega, en framleiðslugeta gróðrastöðvanna hefur ekki getað aukist jafn hratt, að sögn Þrastar Eysteinssonar, skógræktarstjóra. 

Þeir sem ætla sér að ráðast í stórtæk skógræktarverkefni og leggja inn pöntun núna, þurfa að bíða í tvö ár eftir að fá skógarplöntur til gróðursetningar. 

Þröstur bendir þó á að þetta eigi ekki við um hinn almenna markað. Það sé eitthvað til af skógarplöntum sem einstaklingar geti keypt til þess að koma upp trjárækt á eigin lóðum. 

Skógarplöntuskorturinn snertir því helst íslenska ríkið og einkaaðila sem sérhæfa sig í kolefnisbindingu eða vilja koma upp skógum með þúsundum trjáa.

Tvær gróðrastöðvar eftir

Sáning fer fram á vorin, en búið er að ráðstafa öllum plöntum sem rúmast innan framleiðslugetu gróðrastöðvanna, næstu tvö árin. 

Á Íslandi eru aðeins tvær gróðrastöðvar sem annast stórar skógræktarpantanir, að sögn Þrastar. Það eru Sólsskógar á Akureyri og Kvistabær í Reykholti.

Hann bendir á að margar gróðrastöðvar hafi orðið gjaldþrota í kjölfar efnahagshrunsins 2008, þá hafi ríkið verið eini kaupandinn að þessum stóru verkefnum og skógrækt setið á hakanum. 

Eftir að ríkið setti sér markmið að þjóðin yrði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 gjörbreyttist landslagið enda nægir ekki að draga úr losun, heldur þarf einnig að kolefnisbinda. 

„Skógrækt er sú leið sem menn geta farið núna með góðu móti og hæfilegum kostnaði.“

Skógrækt er mikilvægt tæki til að ná markmiðinu um kolefnishlutleysis.
Skógrækt er mikilvægt tæki til að ná markmiðinu um kolefnishlutleysis. Árni Sæberg

Kolefnishlutleysismarkmiði ekki ógnað

Áhugi frá einkaaðilum er einnig nýr af nálinni að sögn Þrastar. 

„Hingað til hefur ríkið verið eini aðilinn sem fjárfestir í skógrækt en nú eru það líka einstaklingar, fyrirtæki og félög, bæði innlend og erlend sem hafa áhuga á því.“

Til þess að mæta þessari auknu eftispurn þarf annars vegar að byggja nýjar gróðrastöðvar og hins vegar að stækka þær sem fyrir eru.

Þröstur segir að bæði sé í bígerð og því engin ástæða til að óttast að kolefnishlutleysismarkmiði ríkisins standi ógn af ástandinu. 

Mögulegt að flytja inn plöntur

Hann bendir á að það sé nú liðinn nokkur tími frá því að gróðrastöðvar voru einkavæddar og telur rétt að treysta á einkageirann áfram,  því sé engin framtíðarlausn að skógræktin grípi inn í með því að opna slíkar stöðvar þó hún gæti hjálpað til við afmarkaða ræktun.

„Það gæti verið að við förum að flytja inn plöntur, það er annar möguleiki, en þá koma flækjustig í sambandi við leyfi og mögulega smitsjúkdóma svo það er ekki eitthvað sem við sækjumst eftir að gera nema í neyð til að brúa bilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert