Ellefu fjölbýlishús rísi á Vatnsnesi

Mikil uppbygging íbúða auk aðstöðu fyrir veitingaþjónustu og verslanir er fyrirhuguð á Vatnsnesi í Reykjanesbæ. Það eru JeES arkitektar í Reykjanesbæ sem hafa unnið nýtt skipulag íbúðasvæðis á Vatnsnesinu og hannað byggingar sem áhugi er á að rísi austast á svæðinu við strandlengjuna og í hjarta Keflavíkur, sem tengist miðbænum beint um Hafnargötu.

Í tillögu JeES arkitekta að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið er gert ráð fyrir að reist verði ellefu fjölbýlishús á fimm og sex hæðum fyrir allt að 328 íbúðir.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar fyrr í þessum mánuði var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna og að sögn Jóns Stefáns Einarssonar, arkitekts hjá JeES arkitektum, ætlar stofan að kynna íbúum tillöguna og hugmyndirnar um heildarskipulag svæðisins í næsta mánuði.

Fjársterkir aðilar koma að þessu verkefni og drífa það áfram að sögn hans. Verði tillagan samþykkt gæti hún legið tilbúin fyrir í febrúar á næsta ári. Þá yrði strax hægt að hefjast handa við framkvæmdir.

Segir hann grunnhugmyndina við uppbyggingu húsaþyrpingar á svæðinu vera þá að reisa stakstæðar byggingar í góðum tengslum við umhverfið og búa til nokkurs konar þorpsstemningu, með góðu flæði tengileiða á milli húsanna að opnu svæði að sjávarsíðunni og nálægu umhverfi. Þá sé reynt sem best að laga skipulagið að göngustígnum sem liggur meðfram strandlengjunni. Landrýmið er það stórt að sögn hans að það býður upp á að við mitt svæðið verði torg þar sem byggð yrði aðstaða fyrir verslun og veitingaþjónustu, sem opnar á samfélagsleg tengsl við aðra bæjarbúa og þar sem yrði gott útsýni. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert