Næst ekki að hreinsa krabbameinið

Birgir Guðjónsson læknir.
Birgir Guðjónsson læknir. mbl.is/Árni Sæberg

Í nýrri grein í fagtímaritinu Cancer Medicine Journal spyr Birgir Guðjónsson meltingarlæknir: Er hægt að réttlæta brottnámsaðgerðir vegna krabbameins í brisi? Til að gera langa sögu stutta þá er niðurstaðan nei.

„Ég hef rætt það sjónarmið við aðra lækna og talað um þetta á ráðstefnum en þetta er í fyrsta skipti sem ég fullyrði þetta í fræðigrein,“ upplýsir Birgir. „Ég bendi á árangursleysi við brottnámsaðgerðir sem aðeins er hægt að gera í 10 prósentum tilfella, auk þess sem þær tryggja ekki árangur að fimm árum liðnum. Margir skurðlæknar eru mér sammála um þetta. Það næst aldrei að hreinsa krabbameinið alveg áður en það er komið út í sogæðarnar.“

Gríðarlegur kostnaður

Birgir bendir á, að gríðarlegur kostnaður sé við aðgerðir af þessu tagi og í ljósi þessa árangursleysis sé rétt að leggja þær af og einblína í staðinn á lyfja- og geislameðferð, auk þess sem beita megi hjáveituaðgerðum, þegar það á við, eins og þegar gall stíflast og fleira.

Birgir staðfestir að briskrabbamein sé með erfiðari krabbameinum við að eiga en þó ekki vonlaust. Dánartíðni er há en hann vill ekki fara nánar út í þá sálma enda ákaflega einstaklingsbundið, auk þess sem miklu máli skiptir að finna meinið snemma. „Það eru talsverðar skekkjur í tölfræði um þennan sjúkdóm sem byggist að einhverju leyti á óskhyggju. Hann er vandrataður meðalvegurinn í þessum efnum; maður má ekki vera of svartsýnn en ekki heldur vekja falskar vonir.“

Fjölgar hægt og sígandi

Að sögn Birgis fer tilfellum briskrabbameins hægt og sígandi fjölgandi hér á landi eins og í öðrum vestrænum samfélögum með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið. „Það stefnir í að árið 2030 verði dánartíðnin sú næstmesta af öllum krabbameinum hér á landi. Þetta er mikill baggi fyrir kerfið,“ segir hann.

Að sögn Birgis er meðalaldur þeirra sem greinast 70 ár en meinið þekkist þó hjá yngra fólki. Hann segir fátt vitað um orsakir og ekkert bendi til dæmis til þess að briskrabbi greinist frekar hjá drykkjufólki en öðrum, eins og stundum er talað um. „Ég myndi alla vega ekki nefna það sem orsök umfram annað.“

Birgir segir fátt hafa breyst varðandi greiningu og meðhöndlun briskrabbameins þennan langa tíma frá því að hann fyrst hóf sínar rannsóknir. „Auðvitað koma alltaf annað veifið ný lyf á markað en ekki er hægt að tala um neina grundvallarbreytingu þessi 50 ár. Það er heldur engin töfralausn við sjóndeildarhringinn,“ segir hann.

Nánar er rætt við Birgi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert