Á ísbjarnarvakt á Grænlandsjökli

Mynd frá ferð Einars Torfa á Grænlandsjökul árið 2014. Þar …
Mynd frá ferð Einars Torfa á Grænlandsjökul árið 2014. Þar sem Brynhildur og Vilborg hafa enn ekki komið niður af jöklinum hafa ekki borist myndir frá þeirra ferð. Einar

„Ég er spenntust fyrir því að fá mér bjórglas og kannski Diet Coke,“ segir Brynhildur Ólafsdóttir aðspurð hvað hún ætli að gera þegar hún kemur heim til sín en hún hefur nú undanfarin mánuð gengið yfir Grænlandsjökul með hópi fólks. Hópurinn er nú við jökulröndina og bíður eftir að þyrla sæki þau á morgun, en þegar mbl.is náði tali af Brynhildi hafði hún ekki átt samtal við umheiminn í rúman mánuð og sat á ísbjarnarvakt á meðan aðrir hvíldust.

Hún segir ferðina hafa verið krefjandi á bæði líkama og sál. „Maður hefur svo langan tíma með hugsunum sínum að maður nær alveg að finna sinn innri mann,“ segir Brynhildur. Allur hópurinn er þaulvant göngufólk og hafa þau gengið hátt í 20 kílómetra á dag að meðaltali undanfarna 30 daga. Síðasta sólarhringinn gengu þau 65 kílómetra til að ná niður af jöklinum áður en veðrið myndi ná þeim.

„Þetta hefur verið krefjandi, kuldinn hefur verið það mikill að skíðin renna ekki. Snjórinn er ekki eins og við þekkjum hann heldur er hann eins og sandpappír. Þetta tók örlítið lengri tíma en við áætluðum fyrst. Við héldum að við yrðum komin niður fyrir Eurovision og kosningar.“

Gengu 65 kílómetra á einum sólarhring

Brynhildur og Vilborg Arna pólfari leiða nú hóp ferðalanga sem nú líkur við mánaðarlanga göngu yfir Grænlandsjökul. Hópurinn er nú í tjöldum við lítið grillhús á austurströnd Grænlands.  „Þetta er grillhús sem þorpið hérna nálægt notar, þorpið er þó svo langt frá að við komumst ekki þangað. En stormur hefur brotið glugga á húsinu sem er nú fullt af snjó svo við fórum ekki inn í það heldur tjölduðum hérna rétt hjá,“ segir Brynhildur en hópurinn flýgur með heim með Icelandair frá Kulusuk á miðvikudag.

Grænlandsjökull.
Grænlandsjökull. Rax / Ragnar Axelsson

Hópurinn hefur ferðast 571 kílómetra undanfarinn 31. dag og er meðal göngulengd því rúmir 18 kílómetrar á degi hverjum en samanlagt gekk hópurinn í 717 klukkustundir. Hópurinn gekk á skíðum með allan farangur í eftirdragi en ferðin hófst við jökulröndina við Syðri Straumsfjörð/Kangerlussuaq á vesturströnd Grænlands. Gengið var suðaustur yfir hájökulinn þangað til komið var til sjávar á austurströndinni, skammt frá smáþorpinu Isortoq. Gert var ráð fyrir að hópurinn yrði á jöklinum í 3-4 vikur og meðferðis var matur og vistir fyrir 28 daga ferðalag. Í gær ferðaðist hópurinn 65 kílómetra til að forðast óveður. 

Mikil blíða í 19 gráðu frosti

Brynhildur segir kuldann hafa verið gífurlega mikinn. „Einni hérna fannst svo mikil blíða einn daginn að hún var komin á ullarnærbol. Þegar við skoðuðum mælinn sýndi hann okkur mínus 19 gráður. Við erum orðin svo vön kuldanum að hann er hættur að bíta á okkur. Við munum líklega öll sofa úti á svölum eða úti á garði í dag.“

Lesa má ítarlega umfjöllun Róberts Marshall þar sem hann fylgir ferðalöngunum eftir og mbl.is mælir með til lesturs. Fyrstu dagana átti að ganga stystar vegalengdirnar myndu lengjast smám saman, sérstaklega þegar komið er yfir hábunguna og halla fór undan fæti.

Hittu Íslendinga á jöklinum

Á jöklinum hittu ferðalangarnir annan hóp Íslendinga sem hófu för sína yfir jökulinn á austurströndinni og ferðuðust því til móts við hóp Vilborgar og Brynhildar. Þegar hóparnir hittust á jöklinum voru mikil fagnaðarlæti og buðu hóparnir hvor öðrum upp á Jameson og After eight súkkulaði ásamt því að hóparnir höfðu æft söng og færeyskan hringdans sem þau sýndu hvoru öðru. Einnig var sungin afmælissöngur fyrir einn ferðalanga austurstrandarhópsins sem varð sextugur í ferðinni. Flutt voru ljóð og eins og Íslendingum einum er lagið voru ættartré ferðalanga rædd og fundnir sameiginlegir vinir og kunningjar.

Þrátt fyrir að mikill kuldi hafi verið hafi hóparnir hist þegar gott veður hafi verið og því getað eytt tíma í spjall og kræsingar. Ekki hafi það verið sjálfgefið þar sem oft sé ekki hægt að ræða saman á jöklinum vegna kulda og flestir dagar fari í göngu, hvíld og næringu þess á milli.  

Hópurinn vildi skila kveðju og þökkum til allra þeirra sem studdu þau og sendu þeim kveðju á leið þeirra yfir jökulinn.

Fyrir leiðangrinum fara Vilborg Arna Gissurardóttir og Brynhildur Ólafsdóttir en aðrir þátttakendur eru Aðalsteinn Árnason, Hermann Þór Baldursson, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Sibylle Köll og Steinn Hrútur Eiríksson.

Nánar má lesa um ferðalagið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert