Fundu haug sem vitnar um sögu Grímseyjar

Frá uppgreftinum í Grímsey.
Frá uppgreftinum í Grímsey. Ljósmynd/Aðsend

Við fornleifauppgröft í Grímsey, í tengslum við undirbúning kirkjubyggingar, fundu fornleifafræðingar gríðarmikinn öskuhaug sem gefur vísbendingu um búsetu í eyjunni skömmu eftir landnám.

„Okkur sýnist yngstu hlutar haugsins frá seinni hluta 19. aldar. Einnig sjáum við það sem við teljum vera landnámsgjóskuna frá 877. Við sjáum merki um mannvist þarna stuttu eftir það,“ segir Hildur Gestsdóttir fornleifafræðingur en hún er stödd í Grímsey.

Hún segist ekki geta sagt til um það nákvæmlega hversu löngu eftir 877 megi sjá merki um mannvist en merki eru um byggð frekar snemma.

„Það eru ekki til neinar staðfestar heimildir um hvenær byggð hefst í Grímsey og við söfnum eins miklum upplýsingum úr þessum öskuhaugum og við getum, á meðan við erum í eyjunni,“ segir Hildur og bætir við að í raun sé saga eyjunnar frá fyrstu tíð í haugnum.

Smíði hefst á næstu dögum

Smíði nýrrar kirkjubyggingar í Grímsey mun hefjast á næstu dögum en fornleifafræðingar hafa komið niður á fleira áhugavert en öskuhauginn.

Komið var niður á það sem talið er líklegur kirkjugarðsveggur, suðvestarlega í kirkjustæðinu. Kirkjugarðsveggurinn bar þess merki að hafa verið viðhaldið um aldaskeið. Að líkindum var hann reistur á miðöldum eða fyrr. Innan kirkjugarðsins sást einnig móta fyrir talsverðum fjölda af gröfum. Í kjölfar þessa fundar var ákveðið að hnika kirkjubyggunni eilítið til, þannig að ný kirkja stæði utan þessa gamla kirkjugarðs og komast þannig hjá því að raska honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert