Sér ekki hvað lögreglan gat gert öðruvísi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundinum.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við þurfum að hlusta betur á samfélagið og erum að vinna að því. Þetta sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á opnum fundi í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd Alþing­is. Fundarefnið var fræðsla og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, óskaði eftir fundinum í kjölfar þess að lögregla og sérsveit höfðu í tvígang afskipti af saklausum sextán ára pilti í tengslum við leit að strokufanga um miðjan síðasta mánuð.

Sigríður sagði að þegar strokufangans var leitað í síðasta mánuði hafi það aldrei verið lögreglunnar að velja hvað væri gert, heldur hafi hún þurft að fylgja ábendingum eftir.

Ekki sé hægt að velja hvaða ábendingum er fylgt eftir, þegar leitað hafi verið að mögulega vopnuðum strokufanga sem talinn er hættulegur.

Harma áreitið sem saklausi pilturinn varð fyrir

Ríkislögreglustjóri segist harma það áreiti sem saklausi pilturinn varð fyrir. Hún bendir þó á að sérsveitin hafi í hvorugt skiptið ráðist að honum með vopn á lofti og hafi ekki haft nein samskipti við hann.

„Þetta er engu að síður mikið áfall fyrir drenginn,“ sagði Sigríður og bætti við að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða. Hins vegar væri ýmislegt, sem mætti huga að.

„Það er óþolandi að saklaust ungmenni verði fyrir þessari erfiðu reynslu,“ sagði Sigríður. Hún ítrekaði að hún sjái ekki hvernig lögreglan hefði getað sinnt málum öðruvísi í þessu tilfelli.

Arndís sagði að það kæmi sér á óvart að lögregla brygðist við öllum ábendingum og að hennar mati hljómi ekki rétt að farið hafi verið svona geyst í að bregðast við.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, óskaði eftir fundinum.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, óskaði eftir fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður benti á að lögreglan stykki ekki á eftir öllum ábendingum. „Þegar einhver hefur strokið frá lögreglu og stungið fólk, verður lögregla að stökkva af stað. Sérsveitin er kölluð til þegar um vopn er að ræða. Þegar það eru hættulegir einstaklingar, höfum við ekki val,“ sagði Sigríður.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði hvort lögreglan hefði getað gert eitthvað öðruvísi þegar strokufangans var leitað í apríl. Sigríður ítrekaði svör sín um að hún vissi ekki hvað lögregla hefði getað gert öðruvísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert