Ferðamönnum á hvern bílaleigubíl fjölgar

Bílaleigur hafa ekki getað gert samninga um afhendingu eins margra …
Bílaleigur hafa ekki getað gert samninga um afhendingu eins margra bíla og þörf er fyrir. mbl.is/Árni Sæberg

Gera má ráð fyrir að sextán erlendir ferðamenn verði um hvern bílaleigubíl í skammtímaleigu í ágúst næstkomandi miðað við fjórtán ferðamenn um hvern bíl á árunum fyrir hrun, samkvæmt greiningu Ferðamálastofu.

Er þá miðað við áætlun bílaleigu um að hlutfall bíla í langtímaleigu hafi vaxið úr 20 prósentum árið 2017 í rúm 40 prósent árið 2022.

Skortur er á nýjum bílum á heimsvísu í ár, en ástæðurnar eru bæði hnökrar í framleiðslu og dreifingu vegna Covid-19 og stríðs í Evrópu og veruleg, snögg aukning eftirspurnar vegna hraðs viðsnúnings í ferðaþjónustu.

Aðeins verið afhentir 1.800 bílar

Í greiningu sinni vísar Ferðamálastofa í upplýsingar frá Bílgreinasambandinu um að bílaleigur hafi haft hug á að kaupa um 5.000 til 6.000 bíla af umboðunum í ár, en ekki fengið samninga nema um 4.000 bíla hingað til. Um 1.800 bílar munu þegar hafa verið afhentir en vonast er til að restin verði afhent í á tímabilinu maí og fram í júlí.

Bílaleigur hafa einnig verið að kaupa notaða bíla bæði innanlands og erlendis frá, ásamt því að taka bíla úr langtímaleigu til að sporna við aukinni eftirspurn.

40 prósent flotans fjögurra ára eða eldri 

Um 40 prósent bílaleiguflotans eru bílar fjögurra ára og eldri og fer því endurnýjunarþörf að verða töluverð, samkvæmt greinginunni. Nýting flotans því kann hugsanlega að verða minni vegna skorts á varahlutum, þjónustu og vinnuafli, breytingu á meðalleigutíma og breytingu á samsetningu og aldri bílaflotans. Hækkað ferð og breytt ferðahegðun hefur einnig áhrif.

Við skort á íhlutum eru framleiddir hlutfallslega dýrari bílar sem leigurnar þurfa að kaupa, sem skilar sér í hærra leiguverði til viðskiptavina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert