Umfang og staðsetning kviku áþekk og var 2020

Fjallið Þorbjörn.
Fjallið Þorbjörn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færslur mælast á yfirborði jarðar sem benda til kvikusöfnunar með miðju skammt norðvestan Þorbjarnar, samkvæmt GPS-mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR-gervihnattamyndum.

Þenslan byrjaði rólega um síðustu mánaðamót en er hraðari núna, að því er kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Vísindaráð almannavarna fundaði í gær vegna aukinnar skjálftavirkni á Reykjanesskaga og hreyfingar sem hafa mælst á svæðinu.

Líkanagerð af færslunum bendir til þess að kvika safnist fyrir á fjögurra til fimm kílómetra dýpi og innskot er að myndast (sylla). Það gerðist einnig þrisvar árið 2020. Umfang og staðsetning kvikusöfnunarinnar í þetta sinn er mjög áþekk því sem var þá og veldur kvikusöfnunin umtalsverðri jarðskjálftavirkni.

Skjálftavirkni yfir meðallagi

Fram kemur í tilkynningunni að jarðskjálftavirkni hafi verið yfir meðallagi á Reykjanesskaga og að yfir 3.800 skjálftar hafi mælst á svæðinu við Þorbjörn undanfarna vikur. Frá 15. maí hafa 17 skjálftar yfir 3 að stærð mælst og tveir yfir 4 að stærð. Mesta skjálftavirknin er á 4 til 6 km dýpi.

„Jarðskjálftavirkni hefur verið veruleg undanfarið og stærsti skjálftinn varð í Þrengslunum 14. maí af stærð 4,8,“ segir í tilkynningunni.   

„Í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli var vakin athygli á því að skjálfti upp á 6,5 gæti orðið í Brennisteinsfjöllum sem hefði veruleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Sú hætta er enn fyrir hendi. Líklegt er að slíkum skjálfta myndi fylgja grjóthrun í bröttum hlíðum og hugsanlega minniháttar skemmdir á innanstokksmunum í allt að 25 km fjarlægð frá upptökunum. Almennt getur skjálftavirkni verið hrinukennd á meðan kvika er að safnast saman í jarðskorpunni vegna þrýstings frá kvikusöfnun,“ segir þar einnig. 

Fram kemur að vísindafólk muni meta hvort mælanet á svæðinu sé ásættanlegt og að það muni koma með tillögur að úrbótum ef þurfa þykir.

„Mjög vel er fylgst með öllum hreyfingum á svæðinu og boðað verður aftur til fundar ef breyting verður á atburðarásinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert