45% hækkun fóðurverðs

Matvælaframleiðsla hefur ekki farið varhluta af verðhækkunum.
Matvælaframleiðsla hefur ekki farið varhluta af verðhækkunum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Viðmælendur Morgunblaðsins eru sammála um að mikil óvissa sé ríkjandi varðandi verð á áburði og hrávöru næsta vetur. Á meðan stríð geisar milli Rússa og Úkraínumanna er erfitt að sjá hvernig uppskera verður í Evrópu í haust.

Innkaupaverð til íslenskra fyrirtækja virðist ekki gefið upp fram í tímann í þessu árferði heldur í mesta lagi viku í senn.

„Spurningin er hvort Úkraínumenn og aðrir á svæðinu geti komið niður útsæði og ræktað í sumar. Fóðurverðið hækkaði um liðlega 20% frá því í mars 2021 þar til stríðið braust út og eftir það hefur verðið hækkað um 23%. Hækkunin á einum mánuði eftir innrásina í Úkraínu var því í kringum 23%,“ sagði Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarða og formaður búgreinadeilda hjá Bændasamtökunum, þegar blaðið hafði samband við hann.

„Svipað er upp á teningnum í öllum öðrum aðföngum. Þegar við kaupum umbúðir þá hefur plastið verið í takt við olíuna og hafði hækkað gríðarlega á síðasta ári. Ég þurfti að panta gám í lok mars. Þá fékk ég þau skilaboð að ég gæti fengið óbreytt verð ef ég pantaði fyrir 1. apríl. Eftir það myndi verðið hækka um 15%. En ég fékk hringingu 31. mars þegar ég hafði þegar pantað. Þá var mér tjáð að ekkert verð væri hægt að gefa upp að svo stöddu. Verðið yrði bara það sem varan myndi kosta þegar hún færi úr verksmiðjunni eftir vikur eða mánuði og ég var bara spurður hvort ég vildi panta eða ekki. Ég bý mig því undir hækkun um 30-50% á umbúðum,“ sagði Guðmundur.

Í blaðinu í dag er einnig rætt við Gunnar Þorgeirsson formann Bændasamtakanna og Sigurð Mána Helguson framkvæmdastjóra Brauðs & co, sem reka mörg bakarí á höfuðborgarsvæðinu.

Verðhækkanir
» Viðmælendur blaðsins staðfesta að miklar verðhækkanir hafi orðið á áburði, fóðri og hrávöru í Evrópu.
» Hærra orkuverð í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hefur margvísleg áhrif.
» Hærra orkuverð veldur víða hærri framleiðslukostnaði.
» Óljóst hvernig markaðirnir verða í haust.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert