Leggja áherslu á kaupmáttinn

VM undirbýr kröfugerð. Félagsmenn eru á fjórða þúsund.
VM undirbýr kröfugerð. Félagsmenn eru á fjórða þúsund. mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagsmenn í VM, félagi vélstjóra og málmtæknimanna, vilja leggja mikla áherslu á aukinn kaupmátt launa í næstu kjarasamningum á vinnumarkaðinum og einnig leggja þeir áherslu á að auka ráðstöfunartekjur heimilanna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðhorfskönnun sem VM gerði meðal félagsmanna á því hvernig semja ætti í næstu kjarasamningalotu en gildandi samningar losna 1. nóvember. Niðurstöðurnar eru birtar á vefsíðu VM.

Voru félagsmenn meðal annars spurðir hverjar áherslurnar ættu að vera varðandi launahækkanir við gerð næstu samninga og voru svarendur beðnir um að raða í mikilvægisröð þeim atriðum sem þeir vilja leggja mesta áherslu á. Aukinn kaupmáttur varð efst á listanum og því næst komu áherslur á auknar ráðstöfunartekjur, lága verðbólgu og lága vexti. Valkostirnir um áherslu á almenna hækkun allra launa og hækkun lágmarkslauna sérstaklega fengu mun lægri einkunnir.

Þegar spurt var hvort föst krónutöluhækkun eða prósentuhækkun skili betri ávinningi skiptust félagsmenn í þrjá hópa. Stærsti hópurinn eða 36% sögðust vilja semja um prósentuhækkun, 34% sögðust vilja fasta krónutöluhækkun og 27% vilja fara blandaða leið krónutöluhækkana og prósentuhækkana.

Einnig kom fram að 73,53% þeirra sem tóku afstöðu segjast vera tilbúin að fara í verkfall til að knýja á um ásættanlegan kjarasamning.

Af þeim sem afstöðu tóku vilja 87,26% að lögð verði áhersla á að einfölduð verði stytting vinnuvikunnar og að hámark dagvinnu verði 36 klst.

„86,55% af þeim sem svöruðu sögðu að leggja ætti áherslu á þríhliða samkomulag á milli launafólks, atvinnurekanda og stjórnvalda til að tryggja kaupmátt og stöðugleika.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert