Útköll vegna örmagna ferðamanna og slasaðs göngumanns

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur farið í tvö útköll það sem af er degi. Annars vegar vegna örmagna ferðamanna við Trölladyngju og hins vegar vegna slasaðs göngumanns á Esjunni. 

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við mbl.is að fyrra útkallið barst um hádegið vegna ferðamannanna. Merki barst frá þeim frá neyðarsendi, sem þeir höfðu með í för, um staðsetningu þeirra.

Um eitt leytið voru þeir síðan sóttir norður af Trölladyngju, skammt frá Vatnajökli, og fluttir til Reykjavíkur. 

Á þriðja tímanum var þyrlan aftur kölluð út vegna slasaða göngumannsins í Esjunni. 

Að sögn Ásgeirs voru sjúkraflutningamenn komnir að honum, en best þótti að kalla á þyrluna til þess að flytja manninn á Landspítala, vegna aðstæðna. 

Ásgeir hafði ekki frekari upplýsingar um líðan göngumannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert