Móðirin ekki framseld til Noregs

Drengirnir eru byrjaðir í skóla og tómstundastarfi á Íslandi og …
Drengirnir eru byrjaðir í skóla og tómstundastarfi á Íslandi og vilja ekki fara aftur til föður síns, að sögn Eddu. mbl.is/Sigurður Bogi

Edda Björk Arnardóttir, sem nam þrjá syni sína á brott frá suðurhluta Noregs í lok mars og flutti þá til Íslands, var handtekin á föstudaginn að beiðni norsku lögreglunnar. Farið var fram á að Edda yrði framseld til Noregs og jafnframt var farið fram á farbann yfir henni, sem var strax hafnað í héraðsdómi.

Í dag hafnaði ríkissaksóknari svo framsalsbeiðni norskra lögregluyfirvalda og féll einnig frá kæru til Landsréttar vegna kröfu um farbann. Þetta staðfestir Edda í samtali við mbl.is.

Hún segir íslensku lögregluna hafa staðið eins vel að málum og hægt var, en lögreglumenn hafi einfaldlega verið að framfylgja kröfu norskra lögregluyfirvalda.

Í kjölfar handtökunnar á föstudag fór Edda niður á lögreglustöð þar sem hún gaf skýrslu og svo fyrir dómara sem hafnaði kröfu um farbann.

Þess var krafist að Edda afplánaði sex mánaða dóm í Noregi sem hún fékk fyrir að halda börnum sínum eftir hér á landi í kjölfar vetrarfrís árið 2019, meðal annars vegna slæmrar tannheilsu þeirra. Edda hafði hins vegar fengi leyfi til að afplána dóminn hér á landi.

Faðirinn ekki höfðað innsetningarmál

Faðir drengjanna, sem búsettur er í Noregi, hefur enn ekki höfðað innsetningarmál til að fara fram á að fá þá afhenta, líkt og búist var við að hann gerði. Edda segir hann augljóslega hafa sett það í forgang að eltast við hana og að reyna fá hana fyrir dóm í Noregi. „Það eina sem hann hefur áhuga er að ná mér, öll þessi orka fer í mig,“ segir Edda. Þetta snúist um hefnd af hans hálfu. Hann vilji ná sér niðri á henni.

Á föstudag var einnig tekin skýrsla af drengjunum þremur í Barnahúsi vegna kæru sem Edda lagði fram á hendur föðurnum vegna meints ofbeldis gegn þeim.

Samkvæmt heimildum mbl.is eru drengirnir, sem eru 11 ára og 8 ára, byrjaðir í skóla og tómstundum hér á landi. Heimildirnar herma að þeim líði vel og vilji ekki fara aftur til föður síns í Noregi.

Sá ekki annan kost í stöðunni

Sam­kvæmt norsk­um dóms­úrsk­urði má Edda aðeins hitta dreng­ina und­ir eft­ir­liti fjór­um sinn­um á ári, fjór­ar klukku­stund­ir í senn og skal þá töluð norska. Faðir­inn, sem einnig er ís­lensk­ur, fer einn með for­sjá drengj­anna og hafa þeir lög­heim­ili hjá hon­um í Nor­egi.

Sam­kvæmt sama úr­sk­urði eiga tvær al­syst­ur drengj­anna hins veg­ar að hafa lög­heim­ili hjá móður sinni á Íslandi, þótt for­eldr­arn­ir fari sam­eig­in­lega með for­sjá þeirra. Eldri stúlkan steig fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í apríl og sakaði föður sinn um að hafa snert sig á óviðeigandi hátt.

Edda leigði einkaflugvél til að fljúga með syni sína til Íslands, en í ítarlegu viðtali við mbl.is skömmu síðar sagðist hún ekki hafa séð annan kost í stöðunni, enda taldi hún velferð barnanna ógnað, líkt og rakið er í viðtalinu.

Hún hafi verið orðin úrkula von­ar um að dóm­stóll í Nor­egi tæki mark á þeim gögn­um sem hún hefði lagt fram. Því hafi hún gripið til þess að örþrifaráðs að sækja syn­ina til Nor­egs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert