Dúxaði MR og síðan til Taílands

Katrín Ósk Arnarsdóttir, dúx MR (t.h.) ætlar að skella sér …
Katrín Ósk Arnarsdóttir, dúx MR (t.h.) ætlar að skella sér með vinkonu sinni, Ingibjörgu Rögnu, til Taílands eftir prófin. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Ósk Arnarsdóttir, dúx 6. bekkjar Menntaskólans í Reykjavík, ætlar að fara á griðastað fyrir fíla í Taílandi í þrjár vikur eftir stúdentsprófin. Hún útskrifaðist af náttúrufræðibraut í gær með aðaleinkunnina 9,88. 

Mbl.is sló á þráðinn til Katrínar, daginn eftir útskriftina og Júbilantaballið í gærkvöldi, þar sem fjöldi útskriftarárganga MR kom saman.

Á auðvelt með að læra utan bókar

Varstu að búast við þessu?

„Nei, alls ekki. Þetta gerðist bara. Ég hef alltaf verið dugleg að læra en þetta var aldrei markmiðið mitt. Ég á stundum erfitt með að fylgjast með í tímum en ég á auðvelt með að læra utan bókar þannig að það hefur hjálpað,“ segir Katrín. Í sumar ætlar hún að skella sér með vinkonu sinni, Ingibjörgu Rögnu, til Taílands á griðastað (e. sanctuary) fyrir fíla sem hefur verið bjargað úr erfiðum aðstæðum.

„Ég held að það verði æðislegt. Við ætlum að vera þar í 3 vikur og síðan förum við til Dúbaí. Þetta er svona griðastaður fyrir fíla sem hafa verið á stöðum fyrir túrista. Við verðum að baða fílana og gefa þeim að borða,“ segir hún. 

Stundaði þríþraut með náminu

Katrín stundaði þríþraut samhliða náminu, sem felur í sér hlaup, sund og hjólreiðar. „Ég þurfti nú reyndar aðeins að minnka það í prófunum en ég fór að synda annan hvern dag og fór út með hundinn minn,“ segir hún. Þá spilar hún einnig á píanó.

Hvert stefnirðu núna?

Ég ætla að henda mér í inntökupróf fyrir læknisfræði. Sjáum hvernig það fer. Síðan veit ég reyndar ekkert hvernig læknir ég ætla að verða,“ segir hún og bætir við að margir eða nánast allir úr bekknum hennar ætli í læknisfræði, sem ætti ekki að koma neinum á óvart enda sækir MR-ingurinn hart í það nám. 

Ætlarðu að byrja strax að læra?

„Ég ætla að henda mér í siðfræðina, það eina sem við lærðum ekki í skólanum,“ segir hún. Þó ætlar hún að njóta sumarsins í faðmi vina, vandamanna og fílanna í Taílandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert