Sjaldan jafn góð mæting í maí

Fjölmennt hefur verið á ylströndinni í Nauthólsvík í dag.
Fjölmennt hefur verið á ylströndinni í Nauthólsvík í dag. mbl.is/Kristvin

Ingibjörg Íris Ásgeirsdóttir, vaktstjóri á Ylströndinni í Nauthólsvík, segir stemminguna frábæra á íslensku ströndinni þessa stundina. Að hennar sögn er heill hellingur af fólki búið að leggja leið sína á ströndina í dag til að njóta blíðveðursins og sólarinnar.

„Hér er fullt af fólki og þetta er bara eins og best verður á kosið,“ segir Ingibjörg og bætir við að það sé búið að vera mjög mikið að gera hjá þeim þessa helgi og þá síðustu og frábær stemming allsráðandi báðar helgarnar. 

„Fólk er í mjög góðu skapi, hér er fólk að grilla, kíkja í sjóinn og aðrir taka því rólega á ströndinni,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi mikla samúð með undirrituðum blaðamanni sem situr inni við fréttaskrif. 

Reykvíkingar nutu veðurblíðunnar í dag.
Reykvíkingar nutu veðurblíðunnar í dag. mbl.is/Kristvin

Hvetur fólk til að njóta sólarinnar

Hitastig sjávarins í Nauthólsvík er komið yfir tíu gráður og hitastig á Ylströndinni er komið í sextán stig. Ingibjörg nefnir að fólki líði eins og að hitastigið sé miklu hærra í skjóli á pallinum á Ylströndinni.

Þá bendir hún að þetta sé mjög mikil mæting miðað við maímánuð og bætir við að hún sé mjög bjartsýn fyrir sumrinu. Hún hvetur fólk heilshugar til að koma og njóta sólarinnar á Ylströndinni. „Það er frír aðgangur hjá okkur yfir sumartímann og ég hvet alla til að mæta með sólarvörnina að vopni,“ segir Ingibjörg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert